Færslur: 2007 Ágúst

31.08.2007 15:07

Mynd vikunnar 7

Þessa mynd vikunnar  tók ég ofan úr Hallgrímskirkjuturni sumarið 2004.

29.08.2007 19:10

Mynd vikunnar 6

Þessi mynd vikunnar tilheyrir síðustu viku.
Myndina tók ég á Húsavík.

29.08.2007 12:44

Fríið búið

Það er gott að vera komin heim eftir ágætlega heppnað tíu daga frí.
Við vorum í stórglæsilegum bústað Ísfólkssins í Grímsnesi og skruppum
svo aðeins norður á Húsavík og nágrenni, fengum þar einstaklega gott veður,
síðsumarfegurð eins og hún gerist best.
Ég rakst á fyrir tilviljun á einstaklega fallegan læk sem er líka bæði
myndrænn og myndvænn (það fer ekki alltaf saman fallegt og myndrænt),
sjá myndaalbúm RYÐLÆKUR.

16.08.2007 19:54

Mynd vikunnar 5

Mynd vikunnar að þessu sinni er um 20 ára gömul blýantsteikning sem ég nefni RÓTFESTA
.

16.08.2007 15:34

Rakalausar fullyrðingar!

Mér finnst háttvirtur alþingismaður Grétar Mar Jónsson bulla feitt um samgöngumál okkar Vestmannaeyinga  í Fréttablaðinu í dag. Grétar Mar Jónsson er sjálfsagt hörku sjómaður og mikill karl í krapinu. En hann virðist hafa lítinn skilning á því sem er stórmál hjá mjög mörgum, það er sjóveikin þegar eitthvað er að veðri. Það segja mér menn sem vit hafa á, að ef halda ætti alltaf áætlun á tveggja tíma ferju til og frá Þorlákshöfn geti það oft verið mjög ill meðferð á farþegum. Hugmyndir þingmannsins um tvær litlar hægfara ferjur er varla skárri kostur. Ég veit ekki hvaða forsemdur þingmaðurinn hefur til að alhæfa um kostnað við fyrirhugaðar framkvæmdir í Bakkafjöru. T.d. talar hann um nýja brú (yfir Markarfljót?). Hugmyndir um þessa brú eru löngu aflagðar, eins og hugmynd um nýjan veg frá Bakka eru löngu aflögð. Þingmaðurinn talar um mesta landgræðsluverkefni sögunnar. Já, verkefnið er stórt en alls ekki það stærsta í ferkílómetrum talið. Svæðið verður ræst fram og grætt upp, hið besta mál. Þingmaðurinn fullyrðir að hafnargarðarnir þurfi að ná út í rifið. Er hann þá að meina að hafnarminnið eigi að vera alveg óvarið fyrir opnu hafi? Haft er eftir þingmanninum orðrétt í fréttinni: "Grétar bendir á að enginn tímasparnaður verði við ferðalög þótt höfn rísi í Bakkafjöru. Breytingin felist í því að ferðamenn verði hálftíma á sjó og aki sjálfir til Reykjavíkur í stað þess að sigla í tvo tíma til Þorlákshafnar". Lesandi góður, skilur þú þennan málflutning? Mér finnst svona fréttaflutningur og fullyrðingar sjálfskipaðra sérfræðinga vera til þess að ala á tortryggni og auka deilur. Það er varla það sem við þurfum helst á að halda núna.


15.08.2007 16:56

Einkennileg fyrirsögn

Það er eins og stundum sé það meðvituð hjá eyjamiðlunum að velja fréttir og þá sérstaklega fréttafyrirsagnir með það í huga að skapa úlfúð og tortryggni. Þetta hefur margsinnis sýnt sig að undanförnu, sérstaklega í samgönguumræðunni. Dæmi um þetta er á eyjanetmiðlum 13.ágúst s.l., þar stendur í fyrirsögn: "Eyjanenn hafna stórskipahöfn". Svo les maður fréttina og þá er ekkert sem styður þessa fullyrðingu. Í fyrsta lagi sagði Elliði bæjarstjóri að stórskipahöfn sé eitt en ferjulægi í Bakkafjöru annað og í öðru lagi er Elliði eyjamaður en ekki eyjamenn. Ég er alveg viss um að hvorki bæjarstjórinn né við hin (Eyjamenn) hér í Eyjum séum á móti atvinnuuppbyggingu í Þorlákshöfn eða annar staðar á landinu, - öðru nær.


13.08.2007 10:44

Einhliða áróður

Nú er á kreiki um Netið myndband sem sýnir ferð með Lóðsinum upp að Bakkafjöru í apríl s.l. Það segja mér menn sem gott vit hafa á siglingum og sjólagi að í því brimi sem sést í myndbandinu myndi 2000 tonna ferja varla haggast. Er bara allt í lagi að nota Lóðsinn sem er almannaeign við að búa til svona einhliða flokkspólitískan áróður?

12.08.2007 21:50

Kleifarvatn og Krýsuvík

Þegar ég er á ferð með myndavél er eitt af mínum uppáhaldsstöðum
við Kleifarvatn og í Krýsuvík. Íslenskara verður það varla. /Sjá albúm)

Vil minna á að það er hægt að skoða yfirlit yfir allar myndirnar í hverju
albúmi fyrir sig með því að smella á merkið í efstu stikunni. (Sjá mynd)

10.08.2007 20:46

Mynd vikunnar 4

Mynd vikunnar er um 15 ár gamalt "málverk" sem ég nefni GRÓÐRARSKÚR og er
60 x 80 cm. að stærð. Verkið vann ég á hvítt harðplast með Vinnuvélalakki .
Hjálparefni voru lakkþynnir, terpintína og bensín. Einnig kom við sögu málningar-
límband og samankuðlaður eldhúslúllupappír sem ég notaði í staðin fyrir pensla.
Verkið var að sjálfsögðu unnið utandyra.


07.08.2007 22:22

Þjóðhátíðaralbúm Heiðrúnar

Mig langar að benda ykkur á risaalbúm með þjóðhátíðarmyndum hjá Heiðrúnu (sjá tengil)


07.08.2007 14:22

Gleðin á enda

Ekki var ég nú eins hrifinn af dagskránni á laugardag og sunnudag en hún var þó ágæt.
Fyrir minn smekk voru Raggi Bjarna og Ley Low stórstjörnur hátíðarinnar.
Fyrir um 15 - 20 árum tók ég talsvert af vídeómyndum á Þjóðhátíðum og þá voru t.d.
Bubbi, Eyvi og Stebbi Hilmars. Ég var aðeins að kíkja á þessar upptökur núna og sá
að lítið hafa menn nú breyst, þ.e.a.s. lagaval og fluttningur. Allt í lagi! 
Ég sagði einhvern tímann hér í vor að kvótakerfið væri lang hagkvæmasta óréttlætið. 
Það má umorða þetta og segja bráðnauðsynleg andstyggðar hnýsni lögreglunnar og 
hennar hunda í föggur okkar þjóðhátíðargesta hafi skilað góðum árangri. 
Já, hann Gauti kærir sig ekki um neitt rugl. Einnig fannst mér öll gæsla í Dalnum vera til 
fyrirmyndar. Extra pakki af rjómagóðu veðri var svo stóri bónusinn, allir voru glaðir.


04.08.2007 18:05

Fimm stjörnu dagskrá

Mér fannst kvölddagskráin í Dalnum í gærkvöldi alveg frábær, fjölbreytt 
og í alla staði vel heppnuð. Brennan var geysi góð, sjaldan eða aldrei
verið betri - það var eitthvað rosalegt V-power í henni.
Eitt af þessum vel heppnuðu atriðum á Þjóðhátíð er Söngvarakeppni
barna, alltaf jafn skemmtilegt og litlu dömurnar sem sigruðu í gær
voru alveg stórkostlegar. Ég gróf upp úr spólusafninu mínu upptöku
frá árinu 1998. Þar eru litlar hetjur sem syngja svo sannar lega frá hjarta 
og sál í úrfellisrigningu.Ég klippti saman smá sýnishorn sem þið getið séð
hér inn á MYNDBÖND.

03.08.2007 13:43

Mynd vikunnar 3.

Mynd vikunnar að þessu sinni er tekin um 1930 af bekkjabíl.
Þessi mynd mun reyndar ekki tekin um þjóðhátíð heldur er þarna
prúðbúið fólk að fara í skemmtiferð á sunnudegi suður í Stórhöfða.
Bíllinn stendu þarna á Kirkjuveginum, kirkjugarðshliðið í baksýn.
Myndasmiðurinn er ókunnur.

02.08.2007 15:40

1973 ljósmyndir

Fyrir nokkru setti ég hér inn album sem heitir ?1974? og hefur vakið talsverða athygli. Ég hef verið spurður um ljómyndir frá 1973. Vandinn er að ég tók bara eina filmu í febrúar gosárið , svo ekkki söguna meir vegna þess að myndavélin mín varð fyrir ?slysi? og andaðist.

Sigmar Pálmason (Bói) hefur góðfúslega gefið mér leyfi að sýna hér í albúmi "1973" myndir úr sínu safni. Bói var hér í Eyjum svo að segja allan gostímann og tók talsvert mikið af góðum myndum.

Ef einhver á ljósmyndir frá gosinu 1973 og af einhverjum ástæðum hefur ekki tök á að  koma þeim á framfæri sjálft er velkomið að hafa samband við mig og ég set þær inn í albúmið hér í vefnum. Má vera venjulegar myndir, filmur eða skyggnur (slides).

02.08.2007 08:49

Að sættast við orðin hlut

 

Það er dálítið merkilegt þegar maður ræðir við fólk hér í Eyjum um þá endanlegu ákvörðun  sem var kynnt okkar á dögunum um Bakkafjöru, þá er eins og sumir hafi ekki meðtekið boðskapinn og neiti að horfast í augu við staðreyndir. Það má líkja þessu við það að maður sem við köllum N.N. fer í allsherjar læknisskoðun. Fjöldi sérfæðinga sem skoða manninn ber saman um að hann sé fílhraustur og að öllu leiti stálsleginn. Við aftur á móti segðum að það sé lítið mark takandi þessu læknastóði, hann N.N. sé fársjúkur maður og sennilega dauðvona.

Ég hef eiginlega alltaf verið Herjólfsmaður í samgönguumræðunni. Hef óskað mér þess að við fengjum nýtt , stórt og þægilegt skip með góðan raunhæfan ganghraða, fjölbreytta afþreyingu um borð og umtalsvert lægri fargjöld. Þessi framtíðarsýn mín og margra er ekki í boði lengur. Nú er það ekki?, spyrja ýmsir eins og þeir hafi lítið eða ekkert fylgst með.

Rannsóknir í og við Bakkafjöru hófust á vegum Siglingastofnunar  á árinu 2000 að frumkvæði Árna Johnsen alþingismmanns er manni sagt. Rannsóknirnar voru fyrstu árin með nokkrum hléum en frá árunu 2005 af fullum krafti þangað til að lokaskýrsla var birt í febrúar á þessu ári. Að þessum rannsóknum unnu margir af okkar færust sérfræðingum, verkfræðingum og vísindamönnum á þessu sviði, erlendir sérfræðingar komu einnig að  verkinu.

Eins og flestir ættu að vita og muna þá var megin niðurstaða lokaskýrslunar að ekkert sé því til fyrirstöðu að byggja ferjulægi í Bakkafjöru. Ekkert neikvætt í skýrslunni, þannig að samgönguyfirvöld gátu varla litið framhjá niðurstöðu skýrslunar. Enda liðu ekki nema nokkrar vikur þegar í raun var búið að ákveða í nýrri samgönguáætlun að Bakkafjara yrði framtíðarlausnin og undirbúningur byrjaði þá strax, s.s. samningar við landeigendur og sveitarfélög, deiliskipulag sem gerði ráð fyrir höfninni og uppgræðsla sandanna.

Fyrrnefndur alþingismaður virðist núna ekki ætla að kannast við "króann" sinn núna, hann fullyrti í blaðaviðtali fyrr í sumar það verði aldrei sátt um Bakkafjöruleiðina. Auðvitað er fólki frjálst að berja hausnum við steininn og vera í stöðugri afneitun ef því líður betur. Ég kýs frekar að reyna að vera bjartsýnn, sjá jákvæðu tækifærin í þessari nýju samgönguleið  og leiða hjá mér alla neðanjarðardraumóra og önnur kaffistofu og götuhornavísindi.

  • 1