Færslur: 2007 Nóvember

27.11.2007 13:04

Uppskrift.

Ein pylsa með öllu eins og ég vil hafana, - nei ekki hafana það er höfuðborgin á Kúbu..eins og ég vil hafa hana (pylsuna) heimakokkaða, ekki keypta í sjoppu. Ég hita pylsuna í potti með vatni, má vera bjór eða maltöl, - ekki verra. Passa vel að ekki sjóði í pottinum því þá er allt fyrir bí.   Þá er það eitt pylsubrauð. Ofan í það setur maður vel af hráum lauk og svolítið af steiktum lauk en ekki meira en það að aðeins hríslist um bragðlaukana keimur af steikta lauknum. Nú set ég góða rönd af tómatsósu og svo kemur aðal bragðið - aðal kryddið í réttinn, það er sinnepið. Sinnepið verður að vera pylsusinnep en ekki eitthvað sinnep sem lítur út eins og ungbarnahægðir. Þegar hér er komið í uppskriftinni getur verið að einhver fari að tala um remúlaði. Það vil ég ekki. Ekki vegna þess að remúlaði sé vont á bragðið, heldur vegna þess hvað það er óskaplega ljótt. Það er varla til sú fæðutegund sem er óhuggulegri en remúlaði, nú er ég f.o.f. að tala um lit og áferð - burtu með það. Í staðin fyrir remúlaðidrullið vil ég að komi rauðkál, - og vel af því. Gott er að velgja kálið aðeins í örbylgjuofni. Mér er alveg sama hvað í upptalningunni hér á undan er undir eða ofan á sjálfri pylsunni. Með þessum rétti má drekka hvað sem er. Get ég reyndar bent á að volg mjólk er ekki heppilegur drykkur með þessu. Ég get mælt með Egils-pilsner, hann er svona mitt á milli þess að vera gott vatn og góður bjór. Verði ykkur að góðu.

24.11.2007 18:00

Um myndagallerý

Mig langar að vekja athygli á að eitthvað er að bætast í MYNDAGALLERÝIÐ.

23.11.2007 22:11

Aðeins um blessaða vatnslitina.

Nú um þessar mundir eru liðin tíu ár síðan að ég hætti að mála vatnslitamyndir af fúsum og frjálsum vilja. Það hefði vissulega verið gaman að geta að þróa sig áfram með þetta vandmeðfarna undraefni, en því miður var engin grundvöllur fyrir því að halda áfram.
Af þessu tilefni ætla ég að setja lítið vatnslitamyndband hér inn á "Myndbönd". 
 

22.11.2007 10:30

Ljóð (texti) vikunnar (8)

Ég hef ekki tölu
á öllum gálgunum sem ég hef upp hengdur hangið
um dagana

Ég hef ekki tölu
á öllum þeim andlitum sem ég hef misst
um dagana

Ég hef ekki tölu
á öllum þeim sjúklegu firrum sem fleytt hafa mér gegn
um dagana

Megas, úr textanum "Ég hef ekki tölu".

15.11.2007 09:33

Mynd vikunnar 17

Þessi mynd tók ég fyrir rúmum 30 árum í miðbænum
.

15.11.2007 09:15

Ljóð (vísa) vikunnar (8)

Lesið hef ég lærdómsstef,
þótt ljót sé skriftin,
og síst ég efa sannleikakraftinn,
að sælla er að gefa en þiggja á kjaftinn.

Káin (1860-1936)

14.11.2007 08:03

Lýðræðið misnotað!

Nú er byrjað enn eitt skemmdarverkið í umræðunni um samgöngumál okkar.
Undirskriftalistar um Bakkafjöru. Hvaða skilaboð er verið að senda yfirvöldum? Svei!

13.11.2007 07:38

Orð vikunnar (3)

Orð vikunnar er úr Orðabók Andskotans:

"Vegur er ræma lands, sem maður getur þrætt þaðan sem leiðinlegt er að vera þangað sem tilgangslaust er að fara".

08.11.2007 07:01

Stjórn og sigling skipa

Nú í morgunsárið er ég að glugga í FRÉTTIR. Þar lítil frétt um bókina "Stjórn og sigling skipa" eftir Guðjón
Ármann Eyjólfsson. Nú hittir svo á að bókin er uppseld en 2. prentun ætti að vera komin í búðir upp úr næstu
helgi. Ég vil þakka blaðinu góð orð í minn garð og von að ég eigi hrósið skilið. Þetta er bæði lang viðamesta og
vandasamasta verkefni sem ég hef tekið að mér.

05.11.2007 09:19

Orð vikunnar (2)

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna:
"Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi".   .....en hvað...?

02.11.2007 09:19

Friður á Íslandi

Nú er komið í ljós að við lifum á friðartímum - engin verðstríð - og við getum haldið áfram að sofa svefni hinna fálátu.

01.11.2007 07:36

Bara gott!

Ég er býsna ánægður með blaðið Fréttir núna í galopið morgunsárið. Þar er kröfum í Bakkafjörumáli gerð ítarleg skil. Vonandi að allt gangi eftir. það er reyndar spurning hvort ekki hefði átt að ganga svolítið lengra og gera
kröfu um að ókeypis verði fyrir bílstjóra. Ég fagna bjartsýnum fréttum.

Undirbúningur í fullum gangi.


  • 1