Færslur: 2009 Febrúar

26.02.2009 08:24

Blindur leiðir blindan

Mér finnst vel við hæfi í ljósi pólitískra atburða um þessar mundir að sýna ykkur þetta víðfræga málverk "Blindur leiðir blindan" eftir niðurlenska málarann Pieter Bruegel oft kallaður Bænda-Bruegel. Hann var líklega fæddur 1525 nálægt Antwerpen og lést 1569 í Brussel. Bruegel málaði þessa mynd 1568 og er titillinn komin úr Matteusar guðspjalli. Þar segir: "Þeir eru blindir leiðtogar; en ef blindur leiðir blindan, falla þeir báðir í gryfju." Verkið er 86 x154 cm., málað með olíulitum og er í eigu Museo Nazionale í Napólí, Ítalíu. Þrír afkomendur Bænda-Bruegel urðu frægir listmálarar. Það voru Pétur yngri, oft kallaður Helvítis-Bruegel og Jan, nefndur Flauels-Bruegel og sonur hans varð málari, kallaður Fugla-Bruegel. Ég mun á næstunni segja eitthvað meira frá Bruegel kallinum og einnig frá ýmsum fróðleik um myndlist almennt.  

23.02.2009 11:39

Tvær aldamótastökur.

Ég fann litla úrklippu úr dagblaði frá árinu 2000, Þar segir frá því þegar ásatrúarmenn ætluðu að halda mikla hátíð á Þingvöllum þá um sumarið. Eitthvað urðu heiðnir óhressir með að kristnihátíðarnefnd ætlaði að rukka þá fyrir not af kamraborg mikilli sem ætluð var til hæginda sannkristnum á þeirra stórhátíð.
Einhver P.K. sendi blaðinu tvær stökur af þesu tilefni:

Þrisvar máttu segja mér
menn þó haldi risnu
að heiðnir fái að hægja sér
við hliðina á þeim krisnu.

Út má finna andríkur
eftir góðum beiðnum
að kúkurinn sé keimlíkur
úr kristnum manni og heiðnum.

14.02.2009 17:18

Vonbrigði

Mér finnst deginum ljósara að stjórnmálaflokkar á Íslandi eru viðjóðslega djöfulleg fyrirbæri.

Góðir lesendur, ég sagði þetta ekki, ég skrifaði þetta ekki. Ég bara hugsaði þetta í dálitla stund.

Ég hef eiginlega alla mína tíð verið stjórnarandstæðingur. Verið á móti öllum ríkisstjórnum sama hvaðan úr pólitíska litrófinu þær hafa komið.

Nú bregður svo við að núverandi stjórnarandstaða hefur valdið mér miklum vonbrigðum. Það virðast vera sérhagsmunir ráða ferðinni fremur en hagur heildarinnar. Svo er þrasað og röflað um einskis verða hluti "skónúmer fótalausra" og hvort hafi verið á undan hænan eða eggið. 

Skammist ykkar!


09.02.2009 07:57

Kreppa eða ekki kreppa það er efinn

 Í október s.l. skömmu eftir bankahrunið  var viðtal í útvarpi við konu sem var fjúkandi reið yfir því að við íslendingar töluðum um að hér væri komin kreppa. Hér væri sko engin andskotans kreppa og hún vissi alveg hvað hún væri að tala um. Konan sagði frá því að hún hefði búið í Finnlandi  á árunum eftir 1990 þegar afar djúp efnahagslægð, raunveruleg kreppa hefði geysað þar í landi. Sagði konan t.d. frá því þegar börn komu í skólann á mánudagsmorgnum var byrjað á því að gefa þeim að borða vegna þess að flest þeirra höfðu ekkert fengið að borða heima hjá sér alla helgina. Einnig sagði konan hafa orðið vitni að því þegar maður nokkur stóð úti 15° frosti berfættur á nærbrókunum að gramsa í ruslatunnu. Maðurinn var fyrrverandi bankastjóri.

 Í Silfri Egils í gær kom fram einhver alveg óþekktur Elías sem sagði svo frá að hann hefði farið í það að rannsaka sjálfur hver hin raunverlega staða fjármála væri hér á landi. Lýsingar Elíasar á ástandinu voru svo yfirgengilega skelfilegar að manni varð bara óglatt. Nokkrum dögum fyrr í vikunni var í fréttum haft eftir fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar væri miklu betra en núverandi ríkisstjórn talaði um. Hverju eigum við að trúa? Er ekki bara gamla sagan að við eigum að láta ljúga okkur full, vera þæg, borga og halda síðan kjafti. 

01.02.2009 18:31

ÍNN

Þrælgóð al-íslensk sjónvarpsstöð, - takk fyrir það!

  • 1