Færslur: 2010 Mars

31.03.2010 21:45

Um myndir í beinni.

Einhver ykkar muna eftir beinum útsendingum frá myndavél var staðsett á Klifinu í gosinu ´73 og send út í ríkissjónvarpinu í staðin fyrir stillimyndina. Ekki voru myndgæðin upp á marga fiska, sérstaklega í myrkri. Athyglisvert að þrátt fyrir ótrúlegar tækniframfarir hafa myndgæðin lítið eða ekkert lagast á 37 árum, sjá mynd hér úr beinni útsendingu Mílu frá Fimmvörðuhálsi nú í kvöld 

31.03.2010 16:43

Dúkkur

Dúkkur og brúður geta oft verið gott myndefni.

27.03.2010 15:33

Nýtt örnefni.

Fljótlega eftir að gjall og aska fór að hlaðast upp og mynda fell um gígana á Fimmvörðuhálsi fóru að koma hugmyndir að nýju nafni á fellið. Er ágæt umfjöllun um þetta í Mogganum í dag.

Ég hef velt þessu dálítð fyrir mér, sérstaklega í ljósi þess hvað hörmulega illa tókst til við örnefnasmíðina hér í Vestmannaeyjum eftir eldgosið 1973. Þar má nefna einstaklega ófrumleg og klúðursleg örnefni eins og ELDFELL OG NÝJAHRAUN.

Aftur á móti finnst mér að vel hafi tekist til með nafnið SURTSEY.

Gosið núna hófst skömmu fyrir miðnætti laugardagskvöldið 20. mars. Strax daginn eftir þegar fólk var búið að átta sig á að þetta væri lítið eldgos var í einhveru fréttaviðtalinu við jarðvísindafólk talað um að kannski væri þetta litla gos forleikur að einhverju miklu meira. Nefnt var í því sambandi gos í sjálfum  Eyjafjallajökli og um leið eða í framhaldi hamfaragos í Kötlu.

Er þá ekki komið nafnið? FORLEIKSFELL, já Forleiksfell á Fimmvörðuhálsi.

Svo má jafnvel rökstyðja nafngiftina frekar með því að vitna í niðurstöður úr mörgum og frægum  atferlis og mannfræðirannsóknum að í kringum miðnættið á laugardagskvöldum sé sá tími vikunnar sem algengast er að fólk leggur stund á að vera hvað notarlegast við hvert annað.


Ath. Þessi ljósmynd kemur blogggreininni hér að ofan ekki beint við. 

26.03.2010 08:49

Góðborgarar

Ég hef ekki tekið mikið af mannamyndum í gegnum tíðina en fann þó þessa í safninu sem ég tók á goslokahátíð í fyrrasumar af kunnum eldri borgurum, svo kunnum að það þarf ekki að kynna þá. 

25.03.2010 21:03

Um gildi menntunar

Ég rakst á þetta óvart í bloggheimum í dag og get ekki orða bundist. Þetta getur varla átt að vera fyndið, er ekki einu sinni aulafyndni. Ef þetta á að vera einhver dulbúin skilaboð þá eiga þau varla erindi við almenning. Maður missir bara trúna á gildi æðri menntunar að sjá svona bull.
Kannski er skýringin að manngreyið hafi lesið yfir sig...?
 

24.03.2010 11:05

Út um gluggann í morgun

Það er misskilningur að þessi ljósmynd tengist gosinu á einhvern hátt. Þetta var svona myndrænt
skýjafar sem blasti við mér út um gluggann í morgunsárið.

22.03.2010 17:01

Sérkennilegt málverk

Ég tek mér það Bessaleyfi að birta hér mynd af þessu málverki eftir listmálarann Kristján H. Magnússon (1903 - 1937). Ekki er gott að átta sig á hvað listamaðurinn hefur verið að hugsa eða hvað hefur kveikt þetta ótrúlega hugmyndaflug. 

22.03.2010 07:06

Myndin um Óskar

Mér fannst sjónvarpsmyndin um Óskar í Höfðanum í gærkvöldi verulega skemmtileg. Þarna var farið yfir einstakt ævistarf manns sem vinnur öll sín margvíslegustu og þörfu verkefni með hægðinni og af yfirvegun.  
Þarna var ekki freistast til að sýna bara gott veður og ekkert veður eins og oft. Stórmagnað var atriðið inni hjá Óskari og allt nötraði og skalf, alveg ekta Stórhöfðastormur. 
Ég óska höfundunum Jóni Karli og Kristínu til hamingju.


17.03.2010 15:14

Landeyjahöfn


Það er góður gangur við gerð Landeyjahafnar þrátt fyrir risjótt tíðarfar undanfarið.
Á ljósmyndinni hér sem var tekin á laugardaginn var má vel sjá að allt tal um mikinn sandburð inn í höfnina á varla við rök að styðjast.

Hér á myndinni fyrir neðan má sjá steypta bita sem munu bera uppi bryggjuþekjuna. Bitarnir hvíla á stoðum sem rekin voru langt niður í sandinn. Grjótgarðurinn í baksýn verður svo fjarlægður, en þar mun verða snúningssvæðið fyrir ferjuna (sjá skipulagsteikningu).


Svo er hér fyrir neðan mynd af grunni farþegaaðstöðu (dökkblátt á teikningunni fyrir ofan).

Útlitsteikning af farþegaaðstöðu.

Allar ljósmyndirnar hér frá Landeyjahöfn eru teknar 13. mars 2010 af Arnóri Páli Valdemarssyni, Adda Palla, hafi hann bestu þakkir fyrir lánið.

11.03.2010 22:45

Súper-samráð

Þið munið hérna um árið þegar öll umræða í samfélaginu snérist um samráð olíufélaganna.
Yfirheyrslur, ásakanir og ákærur. Húsleitir og handtökur. Og það var jafnvel grátið í beinni útsendingu vegna málsins í sjónvarpinu. Svo bara lognaðist málið útaf hægt og rólega í þoku og svima.
Í dag er ekki annað að sjá en samráð olíufélaganna sé algert. Samvinnuhugsjón í verki um okur.
Og engin segir neitt, - heyrist hvorki hósti né stuna.

10.03.2010 17:39

Nýtt safn

Nú stendur til að flytja Fiska- og náttúrugripasafn í annað og stærra húsnæði.
Það gæti verið gaman að þar væru lifandi selir og jafnvel ísbirnir í framtíðinni.