Færslur: 2010 Ágúst

22.08.2010 13:20

Ný háspennumöstur.

Það hefur lengi verið deilt um háspennumöstur í náttúru Íslands. Nú fyrir stuttu barst fregn um að einhver verkfræðistofa í Bandaríkjunum hefði fengið verðlaun fyrir nýja hugmynd að útliti háspennumastra. Voru þessir snillingar í kanalandi búnir að fótósjoppa háspennumöstur í einhvers konar mannsmynd inn í íslenskt umhverfi. Í þessari hugmynd finnst mér ljótleikinn ná alveg nýjum hæðum í hönnun háspennumastra. Skelfilegt! 
Aftur á móti mætti skoða aðra hugmynd sjá t.h á meðfylgjandi mynd, sem ég veit ekki hvaðan er komin. Þarna vottar fyrir formrænni og listrænni hugsun. Vel gæti ég hugsað mér svona möstur væru hvert og eitt í tveimur til þremur daufum jarðlitum frekar en svona ál eða stállituð eins og á myndinni.
 

20.08.2010 09:09

Vanda okkur meira

Fyrir all mörgum árum  var fundið upp á Íslandi hugtakið "menningartengd ferðamennska". Einhvern tíma upp úr því  var fyrst byrjað að merkja hér ýmis fyrirbæri í umhverfinu t.d. Illugahellir, Illugaskip og Sængurkonustein o. fl.

Í upphafi var þetta framtak að frumhvæði og kostað af einstaklingum. Fjölskyldur og félagasamtök hafa svo sett upp skilti og merkingar. Og nú í seinni tíð hafa verið sett upp nokkur ágæt skilti á vegum bæjarins (Byggðasafnsins..?) Við Höfðaveginn rétt ofan við efstu hús er staður sem heitir Olnbogi. Þar skammt sunnan við var fyrir örfáum árum grafið upp (búið til) stakkstæði til að upplýsa fólk um fyrri tíma verkmenningu. Þarna eru tvö bæjarskilti, (sjá mynd) annað til að upplýsa  um Stakkstæðið og á hinu er sagan um Olnbogadrauginn. Við frágang skiltana á sínum tíma hafa verið gerð þau mistök að stakkstæðisskiltið er norðan við draugasöguskiltið.

Ekki veit ég hvernig svona mistök verða til, en ég get alveg ímyndað mér það án þess að persónugera það á nokkurn hátt. Ég sé fyrir mér "verkstjóra" standa yfir verkinu sem er búinn að troða báðum höndum inn fyrir rassvasana og glóran í toppstykkinu eftir því. Því miður er þetta alls ekki eina mistökin í framkvæmdum og skipulagi. 

Nú þegar ferðafólki er greinilega að stórfjölga hér, þurfum við enn frekar að vanda okkur, laga fyrri mistök og reyna að koma í veg fyrir ný klúður.


17.08.2010 11:42

Meira en hálf öld á milli ljósmynda.

Þessar myndir þarfnast varla útskýriga. Taka skal þó fram að gamla myndin kemur úr ljósmyndasafni Heiðars Marteinssonar.

06.08.2010 21:51

Hinseigin

Það virðist flest ætla að verða hinseigin þessa helgina - eiginlega allt!

05.08.2010 14:12

Ímyndir: Clapton, Hera og Megas.

Merkilegt hvað ímyndir geta breyst í huga manns af litlu tilefni, ýmist beðið hnekki eða styrkst.
Í síðustu viku rakst ég á frétt um að Eric Clapton hefði borðað á einhverri skyndibitabúllu í Reykjavík.
Og svo í þokkabót hafði "Guð" látið taka af sér ljósmynd með einhverjum tveim gaurum sem mér skilst að séu eigendur umræddrar sjoppu. Ég hugsaði nú bara, "getur Clapton ekki étið almennilegan mat?" um leið og ég hætti snarlega við að horfa enn einu sinni á uppáhaldið mitt á DVD "Cream á tónleikum í Royal Albert Hall 2005".
Svo rakst ég á aðra frétt í gær þar sem segir frá því að trúbadorinn Hera Hjartardóttir hafi nýlega gengið að eiga sinn heittelskaða hér heima á Íslandi. Þar sem foreldrar Heru eiga heima á Nýja-Sjálandi og áttu ekki heimangengt, fékk brúðurinn sjálfan Megas til að leiða sig inn til athafnarinnar en giftingin var borgaraleg hjá sýslumanni.
Við þessa frétt hækkaði Hera svo í virðingarstiganum hjá mér að hún hljómar nú yndisleg í mínum eyrum daginn langann. Megas aftur á móti getur ekki hækkað neitt í fyrrnefndum stiga því þar hefur hann trónað efstur svo lengi.
Um fyrri fréttina get ég sagt að eftir að hafa dregið andann rólega og hugsað málið, að auðvitað eru þetta hreinir fordómar. Eric Clapton er auðvitað frjálst að snæða það sem hann langar í og þar sem honum sýnist. Ég skammast mín.

04.08.2010 11:48

Bragi á fluginu.

Reisum styttu af Braga, ef ekki stóra höggmynd utan dyra, þá brjóstmynd innandyra upp í flugstöð.
Það bara verður!

02.08.2010 22:18

Þjóðhátíð

Þá er þjóðháhíðinni lokið þetta árið. Allt rann þetta stórslysalaust í veðurblíðunni. En það sannast enn einu sinni að það fer ekki alltaf saman magn og gæði.
DJAMM! - þetta er einn mest aulahrollsvaki sem hefur komið fram langan tíma.

  • 1