Færslur: 2011 Mars

30.03.2011 14:10

Perla Alþingis.

Perlan á Öskjuhlíð er til sölu. Er ekki alveg upplagt að bankarnir (yfirfullir af peningum) tækju sig saman og keyptu Perluna handa Alþingi íslendinga? Sem sagt slá tvær flugur í einu höggi og koma þinginu í almennilegt húsnæði við hæfi, og hitt að Alþingi er búið að gera mikið fyrir bankana á liðnum árum og áratugum þannig að þetta er kjörið tækifæri fyrir bankana að þakka fyrir sig.
Eins og kunnugt er snýst gólfið að hluta uppi í aðalsal Perlunnar. Þessi snúningur ætti að vera afar heppilegur í aðalþingsal Alþingis. Eins og öllum er kunnugt snúast þingmenn mikið. Það er eitt í dag og annað á morgun í málflutningi þeirra flestra. Ég veit að einstaka þingmaður nær því að hafa samviskubit vegna þessa, ekki nagandi en svona örlítinn seiðing.
Með því að hafa Alþingi íslendinga á sporbaug um sjálft sig leysast ýmis vandamál. Ég nefni eitt dæmi: Þingmaður fer í ræðustól og talar í norður. Svo þegar hann er komin undir lok ræðu sinnar er hann farinn að tala í suður alveg án þess að fá samviskubit eða að vera ásakaður um hringlandahátt.

29.03.2011 11:01

Sjónvarpsgláp barna.

Fólk hefur lengi velt fyrir sér hvaða áhrif mikið sjónvarpsgláp hefur á börn. Hafa reyndar verið gerðar margar vísindalegar rannsóknir og kannanir, en engin ein niðurstaða fengist. Eðlilega.

28.03.2011 13:00

Veglegur kranabíll

Veit Haukur á Reykjum af þessari græju...Ha?

22.03.2011 07:30

Nútíma galdrafár.

Ég hef með hléum verið að lesa bók sem heitir "Píslarsaga séra Jóns Magnúsonar" eftir Matthías Viðar Sæmundsson. Bókin fjallar um óskaplegt galdrafár sem geysaði vestur í Skutulsfirði upp úr miðri sautjándu öld. Séra Jón þessi var haldinn ofsóknaræði á háu stigi svo ekki sé nú meira sagt. Var viss um að allt sem miður fór í hans lífi, heilsuleysi sitt og hvaðeina væri "göldróttum" nágrönnum sínum að kenna. Og menn voru brenndir - til ösku (.en ekkert lagaðist við það.. Skrýtið!)

Eftir lestur þessara frásagna sem eru vel studdar samtímaheimildum hef ég áttað mig á því að í nútíma bloggheimum væla og skæla daglega nokkrir svona "sérajónar". Menn sem eru ofsóknarbrjálaðir og vænisjúkir, allt sem miður fer að þeirra mati er öðrum að kenna. Þeir eru flestir fullir af þjóðernisofstæki, útlendingahatri og með illmælgi landráðabrigsl út og suður. T.d. hefur einn þessara "sérajóna" lagt til í bloggi sínu að þekktur íslenskur stjórnmálamaður verði tekinn af lífi.

Ég held að þessir menn séu sjálfum sér vestir. Þeim hlýtur að líða mjög illa alla daga, sjá aldrei neitt jákvætt, sjá aldrei til sólar og stöðugt ofsóttir af  ímynduðum óvinum, Um nætur með skrímslin, árana og grýlurnar undir rúmunum sínum og í dimmum skotum eigin hugarfars og martraða.

Nú er það spurningin hvort maður þurfi nokkuð að lesa þetta. Svarið getur verið bæði já og nei. T.d. er bókin sem ég nefndi hér í upphafi engin skemmtilestur, tyrfinn texti og þungur. En þetta er hluti af sögu þjóðarinnar. Nútíma bloggið er og verður svolítill partur af sögunni, bæði það uppbyggilega og einnig niðurrifsrausið. Að sjálfsögðu er þetta frjálst val. Sumir velja að líða áfram á bleiku bómullarskýi, sjá ekki neitt, vita ekki neitt, skipta sér ekki af neinu og halda bara kjafti.

 

18.03.2011 13:52

"LÖGMÁL ÍSLENDINGA!

Já, í ljósi umræðunnar hér á landi undanfarnar vikur og mánuði tel ég alveg bráðnauðsynlegt að birta enn og aftur tíu reglur Jantelögmálsins.

      Tíu reglur Jantelögmálsins:

1.   Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað.

 2.   Þú skalt ekki halda að þú sért jafn góður og við.

 3.   Þú skalt ekki halda að þú sért vitrari en við.

 4.   Þú skalt ekki halda að þú sért betri en við.

 5.   Þú skalt ekki halda að þú vitir meira en við.

 6.   Þú skalt ekki halda að þú sért meiri en við.

 7.   Þú skalt ekki halda að þú dugir til nokkurs.

 8.   Þú skalt ekki hlæja að okkur.

 9.   Þú skalt ekki halda að nokkrum sé ekki sama um þig.

10.  Þú skalt ekki halda að þú getir kennt okkur nokkuð.

 

15.03.2011 16:29

Páll Imsland uppistandari

Inn á ruv.is er gluggi sem heitir "SAMKOMUHÚS ÍSLENDINGA Í 80 ÁR".Þarna er safnað saman útvarps- og sjónvarpsefni frá liðnum árum og áratugum. Margt er þarna gamalt, gleymt og forvitnilegt sem vert er að gramsa í.

Þarna er samantekt frá því nú í vetur um Landeyjahöfn og var sýnt  í Kastljósum.M.a. er alveg fáránlegt viðtal við Pál Imsland sem er titlaður jarðfræðingur. Ég held að hann hljóti frekar að vera uppistandsgrínari, svo fráleitar eru  hans útskýringar um þróun mála í og við Bakkafjöri.

Ég er ekki sérfróður um brim og sandstrendur, en hef kynnt  mér málið talsvert vel.Ég tel mig geta fullyrt að það sé ekki heil glóra í neinu sem Páll segir í viðtalinu.Ýmsir töldu á sínum tíma að Páll hefði í raun verið að spauga og grínast. Það er margt sem styður að það sé rétt eins og ég hef lýst.

Þá er það spurningin hvort útvarp og sjónvarp allra landsmanna á ekki að sýna vandaðri vinnubrögð og láta okkur áhorfendur vita þegar spaug er í gangi  eða hvort   viðtal í það og það skiptið sé marktækt alvörumál.


12.03.2011 16:53

Alveg fráleitt!

Ég þurfti sérstaklega að athuga hvort ég hefði tekið rétt eftir að hafa heyrt í útvarpsfréttum að svo gæti farið að bæði varðskipin okkar yrðu send úr landi í svo og svo langan tíma.
Mér finnst að bara að láta sig detta í hug svona firru eitt augnablik eigi að vera refsivert. Eigi að tilheyra landráðagrein hegningarlaganna. 

09.03.2011 08:45

Til hamingju! Bjartmar.

Bjartmar Guðlaugsson er maður sem veit ekki hvað hann vill, en er maður sem veit hvað hann vill ekki, að eigin sögn. Snilld.

08.03.2011 17:07

Hefjum landssöfnun

...til styrktar Steinþóri Pálssyni bankastjóra Landsbankans. Það auðvitað gengur ekki að maður sem ber svo gríðarlega ábyrgð sé aðeins með skitna milljón á mánuði. Maður með slík laun á varla til hnífs og skeiðar um hver mánaðarmót, það sjá allir. Svo er það hugarangrið sem fylgir þeirri tilfinningu að vera ekki í raun metinn að verðleikum. Nýjasta dæmið niðurlægingu Steinþórs er að hann er gerður hornreka meðal kollega sinna - ekki boðaður á fund viðskiptanefndar hins háa Alþingis í morgun.


08.03.2011 09:09

Kjarnorkuver í Vestmannaeyjum?

Á sjötta áratug síðustu aldar var borað víðvegar á Heimaey til að freista þess að finna hreint og gott vatn. Árangurinn var enginn og margir töldu fullreynt, yrði að leita annara ráða til vatnsöflunar fyrir heimili og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum Ein af þeim ráðum sem mönnum datt í hug var að byggja kjarnorkuver austur á Urðum sem átti síðan að knýja stóra græju sem eimaði sjó í stórum stíl.

Um þetta las ég fyrir tuttugu eða þrjátíu árum en get ekki með nokkru móti munað hvar ég fann þetta á prenti. Á þeim tíma var eiginlega engin sem kannaðist við þetta. Einhver taldi þó að líklega hefði þetta verið aprílgabb. Árum seinna hitti ég ónefnt langminnugt gáfumenni sem taldi að kjarnorkuvers-hugmyndin hafi verið raunveruleg en fljótlega hafi menn séð á þessu alls konar meinbugi og málið þaggað niður. Jafnvel að menn hafi skammast sín fyrir að hafa talið hugmyndina raunhæfa í upphafi. 

  Þetta rifjaði ég upp nú á dögunum  þegar ég las á eyjar.net um  tilboð árið 1959 frá USA til Orkustofnunar í kjarnorkuver sem gæti passað fyrir Vestmannaeyjar. Ekki er þar minnst á að eima sjó, en verið átti að framleiða rafmagn  og hita vatn til upphitunar húsa í bænum. 

Nú bregður svo við eins og fyrr að fréttin vekur litla athygli og engin sem ég spyrkannast við að hafa einhvern tíma heyrt um hugmyndir um Kjarnorkuver í Vestmannaeyjum.

Mér finnst svona sagnfræði dálítið forvitnileg og líka skemmtileg. 


06.03.2011 14:42

Frændþjóðir

Meðlimir í íslenskum klofbílasamtökum allir sem einn hafa verið gerðir brottrækir frá Noregi. Ískensk yfirvöld munu ætla að gera það sama. Er þetta rétt aðferð við lausn á vandamáli.....?


03.03.2011 16:27

Hljómsveitin ANDREW

Það er oft gaman að gramsa í gömlu dóti. Nú fyrir stuttu gróf ég mig niður á vínilhljómplötu nokkra sem  ég hef varla séð og hvað þá heyrt í áratugi. Gripurinn heitir "Woops"  með hljómsveitinni ANDREW. Þessi plata mun hafa verið gefin út í fáum eintökum og því sjaldgæfur gripur sérstaklega nú þegar hundruðir tonna af vínilplötum hefur verið kurlaður, brenndur og grafinn um allt land.

 Eiginlegir meðlimir í þessari hljómsveit voru bara tveir en margir koma við sögu með þeim á plötunni. Annar þessara tveggja er Júlíus Agnarsson sem var lengi allt mögulegt og yfirmótoristi hjá Stuðmönnum. Júlíus er á plötunni gítarleikari og aðallagahöfundur. Hinn aðalmaðurinn í ANDREW var Andri Örn Clausen. Hann var aðalsöngvari sveitarinnar ásamt að koma við sögu í hljóðfæraleik og vera meðhöfundur nokkra laga á plötunni. Andri var um árabil allþekktur og vinsæll leikari, snéri síðan við blaðinu, fór í  framhaldsnám til útlanda og lauk námi í klíniskri sálarfræði. Andri lest langt fyrir aldur fram  eftir erfið veikindi árið 2002. Þess má geta að Andri var eiginmaður Elvu Óskar Ólafsdóttur, "okkar", leikkonu.

 Meðal þekktra nafna sem spila með þeim félögum á plötunni er Ásgeir Óskarsson á   trommur í öllum lögunum, Ómar Óskarsson (Pelican) á bassa í flestum lögum, Egill Ólafsson á píanó, harpsicord, bassa og fl. ásamt að syngja bæði aðal og bakrödd í nokkrum lögum. Björgvin Gíslason spilar á moog í einu lagi.  Svo verð ég að nefna dálítið dularfullan mann sem kallar sig Estan. Hann mun hafa eitthvað gripið í hljóðfæri og tekið þátt í lagagerð á plötunni. Einhver sagði mér að Estan þessi  muni hafa átt frumkvæði að því þessi plata varð til og verið aðaldriffjöðurin í gerð hennar.

 Ég ætla ekki að skrifa neina plöturýni hér en get lýst plötunni "Woops" í mjög stuttu máli. Lögin tíu eru flest melodísk en afgangurinn dálítið sýrukenndur. Hljómurunn er stundum svolítið einkennilegur sem ég held að sé vegna þess að upptökur voru gerðar af vanefnum að mestu eða öllu leiti í heimahúsi. Allir textar eru á ensku.

 Svo er það spurningin frá hvaða ári þessi umrædda plata er. Hvenær var hún tekin upp? Hvenær kom hún út? Það kemur hvergi fram hvorki á plötunni sjálfri, umslagi eða meðfylgjandi textablaði. Ég giska á ártölin 1972 til 1974 án þess að hafa hafa mikið fyrir mér í því. Fróðlegt væri ef einhver sem þetta les gæti frætt okkur nánar um hljómsveitina ANDREW og plötuna Woops.

 Ég mun svo fljótlega skrifa annan pistil hér um allt annað mál undir kjörorðunum "gramsað í gömlu dóti" þar sem fyrrnefndur Estan kemur líka við sögu.

  • 1