Færslur: 2011 Desember

29.12.2011 10:11

Um snjóinn.

Einkennilega að orði komist í fréttum RÚV í morgun: "....ófærð á götum borgarinnar vegna mikils fannfergis í nótt". Þarna er verið að mínum dómi að rugla saman orðunum fannfergi sem er mikill snjór á jörðu niðri og snjókomu, ofankomu, stórhríð o.s.fr.

Annað: Fyrsta heila árið sem ég bjó hér í Eyjum var 1968. Þá, mig minnir í byrjum mars snjóaði hér mikið á einni nóttu. Meira að segja ég norðlendingurinn varð að viðurkenna að fannfergið væri meira en bara smá föl. Ég tók eftir því að menn báru sig misjafnlega að við snjómokstur. Skiptust í tvo flokka, annars vega innfæddir og hins vegar aðkomnir, aðallega að norðan. Innfæddir mokuðu snjónum með litlum malarskóflum eins og þeir væru að moka salti. Voru margir daglangt að glíma við snjódyngjuna. Hinir (að norðan) notuðu stórar skóflur og stungu snjóinn skipulega í hnausa og afköst voru mun meiri en hjá fyrrnefnda flokknum. Þetta er f.o.f. saga um muninn á reynslu og reynsluleysi
- með svolitlum "þingeyingi" í bland.


24.12.2011 13:31

Gleðilega hátíð!

Kærar jólakveðjur til ykkar sem hafið verið svo dugleg að heimsækja mig hér á síðuna.

13.12.2011 19:33

Hundur hvað?

Hvaða bull er þetta eiginlega? "Hundur ók á bíl" segir í fyrirsögn (ekki)fréttar sem miðlar hafa verið að éta upp eftir hver öðrum í dag. Hundur ekur ekki bíl. Aldrei. Aftur á móti getur hundur valdið árekstri, orðið valdur að árekstri o.s.fr. Þó að hundar hér í Eyjum hafi margir mannsvit og vel það, þá hafa þeir ekki hundsvit á akstri bifreiða. 

12.12.2011 12:30

Glæpatíðni í Eyjum.

Endemis rugl er þetta. Það vita allir að við eyjamenn erum löghlýðnastir og ljúfastir allra. Það gæti þó verið að einhver sannleikskorn og skýringar séu á fréttinni. Önnur er eflaust framúrskarandi vökul augu og dugnaður lögreglunnar hér í Eyjum. Hin skýringin og vísast höfuðástæða er eins og alltaf a.k.p. 
 

08.12.2011 00:23

Oj!

Hún var ekki mjög geðsleg fræðslumyndin um mat í sjónvarpinu áðan.

05.12.2011 11:51

Um fréttaflutning

Það eru í stórum dráttum þrenns konar fréttafluttningur í fjölmiðlum. Það er staglfréttir sem við á endanum hættum að skilja. Dæmi um þetta er um Nubotorg hins himneska friðar norður á Hólsfjöllum og nýtt fangelsi. Önnur tegund af fréttum er þegar einhver "stórisannleikur" er aðalmálið í örfáa daga ,en svo aldrei meir. Dæmi um svoleiðis er að skömmu eftir hrun voru allir fréttatímar og dagblöð full staðhæfingum um að eina leiðin til að brjótast útúr kreppunni á Íslandi væri að ná í alla þá þúsundir milljarða sem útrásarillmenni áttu að hafa flutt úr landi og falið í fjarlægum tortólum. Nú er þetta aldrei nefnt einu orði.

Þriðja og vesta sortin af fréttum er þegar áhrifamiklir sérhagsmunagæslumenn búa til eða láta búa til fréttir "fréttir". T.d. nýlega þegar Kastljós Sjónvarpsins var misnotað til að koma höggi á forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Annað dæmi er frá því nú í haust þegar haft var eftir landsþekktum hæstaréttarlögmanni sem sagði: "Að sérstakur saksóknari væri að leggja líf hundruða í rúst, og koma þurfi í veg fyrir frekari dómsmorð".

Ég held að okkur almennt finnist málin ganga frekar hægt hjá sérstökum. En hann muni með seiglunni koma delinkventum í rasphús, hvort sem það verður uppi á Hólmsheiði eða einhver staðar annar staðar.   

 

  • 1