Færslur: 2012 Febrúar

28.02.2012 08:45

Frekar hæpið.

Það hefur vakið athygli hvað margir eldri borgar frá útlöndum ætla koma hingað til Íslands á næstu mánuðum til þess spila og syngja fyrir okkur (sum okkar) á tónleikum.
Nýjasta nafnið sem ég hef heyrt er Manfred Mann Earth Band sem var upp á sitt besta um 1980.
Á RÚV var þessri sveit klaufalega ruglað saman við hljómsveitina Manfred Mann sem átti marga góða smelli á árunum kringum 1965. Organistinn Mann tilheyrði reyndar báðum þessum söfnuðum. 
Manfred Mann Earth Band án hins frábæra sönvara og gítarleikara Chris Thompson vekur ekki áhuga minn, því miður.

26.02.2012 16:29

Þór Saari

Ég lét hafa það að horfa á Silfur Egils í dag. Lét mig hafa það segi ég vegna þess að oftar en ekki er fyrri hluti þáttarins rex og pex, já og stundum hreinn hálfvitagangur.

Það var svo sem engin undantekning frá þessu í dag nema að ég endanlega sannfærðist um að þingmaðurinn Þór Saari er höfðinu hærri en þau sem með honum voru í þættinum. Seinni hlutinn var ágætur eins og jafnan. Lögfræðingurin Sævar Þór skírði margt athyglisvert á skiljanlegu mannamáli og  hagfræðingurinn Ólafur í samtali við Egil á skeipinu var með ansi skondnar útskýringar á skuldasúpu og peningagrautarfræðum.

Niðurstaða mín er þessi: Áfram Þór Saari - til fjandans með fjórflokkinn.


24.02.2012 07:04

Fundu upp hjólið???

Furðuleg var fréttin í tíufréttum RÚV í gærkvöldi (23.2.2012) um að vísindamenn austur í Úkraínu hefðu fundið upp björgunarbát sem hægt væri að renna beint frá skipi í sjóinn með áhafnarmeðlimi innanborðs.
Einnig var sagt að á sama stað hefðu menn gert vel heppnaðar tilraunir með björgunarflotgalla. Halló!
Ekki kom fram í fréttinni hvað væri svo nýtt við búnaðinn að réttlætti þennan fréttaflutning.
Líklegasta skýringin er að fréttastjóri á vakt hafi ekki verið með á nótunum, viti ekki betur. 

Meðfylgjandi mynd tók ég árið 2005, hefði getað verið 1995 eða fyrr.

23.02.2012 15:39

Fagnaðarefni.

Nú berast fréttir af því að loksins, loksins eigi að vinna deiliskipulag fyrir botni Friðarhafnar.

19.02.2012 09:01

Konudagur

Gömul sápuauglýsing

18.02.2012 12:29

Hugur í mönnum.

Það er gróska í byggingastarfsemi hér í Eyjum um þessar mundir. Og það er ekki síður gróandi í alls konar pælingum og hugmyndum. Það eru t.d. íbúðablokkir fyrir fólkið á virðulega aldrinum, það eru Fiskiðjan og gamla Ísfélagið, hvað á að gera þar? Það eru heilmiklar framkvæmdir fyrirhugaðar í og við höfnina. Margt fleira mætti upp telja.

Allt saman er þetta gott og blessað svo framarlega að allur undirbúningur framkvæmda er vel ígrundaður til að forðast eftiráþrasið sem við þekkjum svo vel.

 Meðfylgjandi mynd tók í draumi fyrir skömmu. 

 

11.02.2012 11:32

Gamlingjar

Mér til ánægju og gleði hef ég undanfarin kvöld verið að lesa bókina "GAMLINGINN" eftin hinn sænska Jonas Jonasson. Eitthvað er nú sameiginlegt með aðal söguhetju bókarinnar og þess gamla sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að eiga aðild að sprengjutilræði á Hverfisgötu fyrir skömmu.
Ég mæli eindregið með bókinni.

10.02.2012 06:54

Júró og Bakú

Það sem í einu landi og eða heimshluta er almennt talin prýðileg hegðun og sjálfsagður hlutur getur í öðrum löndum þótt óþolandi grimmd og illska.

 Dæmi: Ef það ólíklega gerðist að við íslendingar sigruðum Evróvisjónkeppni og ættum og vildum halda keppnina árið eftir með stórum glans og bravúr. En þá kæmi í ljós að ýmsar þjóðir vildu bara alls ekki senda sitt fólk í keppnina hér á Íslandi vegna þess að árlega veiðum við nokkrar hrefnur okkur til matar, - erum morðóðir villimenn. 


09.02.2012 08:34

Godthaab í Nöf.

Ég var að lesa FRÉTTUM bjart og hressandi viðtal við eigendur Godthaab í Nöf af tilefni 10 ára afmæli fyrirtækisins. Spjallið ber yfirskriftina "Barnið hefur braggast vel". Barnið sem sumir töldu að ætti eyða á "fósturstiginu" fyrir áratug síðan.

Þeir félagar nefna svæðið fyrir botni Friðarhafnar þar sem þeir á sínum tíma sóttu um  að fá byggjngarétt á en fengu höfnun. Þarna held ég að bæjaryfirvöld hafi gert sín stærstu mistök í skipulagsmálum á seinni árum. Ég trúi að umrætt svæði sé algjörlega kjörið til að byggja frá grunni nútíma fiskvinnsluver sem yrði tæknilega og að öllu leiti í heimsklassa. Og ég sé fyrir mér yfirbyggða löndunaraðstöðu sem ágengir og sídrullandi mávar fengju ekki aðgang að.

Ég óska eigendum og starfsfólki Godthaab í Nöf  til hamingju með afmælið og árangurinn.


07.02.2012 08:24

Allt í klessu.

Fólk talar stundum um klessumálverk. Ætli málverkið á myndinni sem hér fylgir falli undir þann flokk?

05.02.2012 11:45

Smurstöðin

Nú um helgina hafa þeir hjá Laurel & Hardy verið að brjóta niður smurstöðina við Græðisbraut. Þetta hús átti sögu en kannski ekki mjög merka sögu. Byggð  f.o.f. til að þjóna miklum fjölda vörubíla sem hér voru, trogbílarnir voru reyndar lengst af á síðustu öld miklu fleiri en minni einkabílar hér í Eyjum.
Eftir að Bílastöðin hætti starfsemi hefur þetta svæði verið fremur illa nýtt. Smurstöðin víkur nú fyrir nýju húsi sem mun hýsa Húsasmiðjuna.

Meðfylgjandi mynd tók ég í gær og innfelda myndin sem ég held að sé tekin árið 1958 sýnir að smurstöðin er í byggingu.