Færslur: 2012 Desember

21.12.2012 21:54

Um jólakveðjur og ójólaleg epli.

Mér finnst margir vera sammála mér að jólakveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu séu eða hafi verið svona mesta jóla jóla stemmingin. Einhvers konar staðfesting að sjálf jólahátíðin er rétt handan við hornið. Ég heyri raddirnar - Jóhannes "skírari" Arason og blessuð Bjarklind. Ilmur af hangikjöti og laufabrauði, ilmur af hreinlæti og ilmur af eplum - en bíðum nú við "ilmur af eplum" er hann til lengur? Nei, ég held að lyktarlausu og oftast óætu eplin sem eru á boðstólnum núna séu ræktuð í besta falli sem iðnaðarhráefni en líklega aðallega sem skepnufóður.

Jæja, ég ætlaði nú bara að tala um jólakveðurnar í útvarpinu. Einhvern vegin hafa þær orðið dálítið "lyktarlausar" með árunum. Kenni ég þar um "kveðjur" frá alls konar fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum sem mér finnst vera hreinar auglýsingar  sem skemma sjálfar jólakveðjurnar og eigi að lesa á öðrum tíma. Það er að mínum dómi ekkert ójólalegra en margendurtekin auglýsing frá einhverri bílapartasölu svo ég tali nú ekki um það sem á að vera hugheilar jólakveðjur en eru það ekki (bara hræsni) frá ljótum og leiðinlegum stjórnmálaflokkum. Svei þeim.

En þrátt fyrir þetta röfl í mér sem er auðvitað þarft og nauðsynlegt þá koma blessuð jólin til okkar flestra með allri sinni helgi, töfrum og yndislegheitum. Gleðileg jól öll!


12.12.2012 09:12

Fjós.

Fjósin hafa verið í fréttum. Viðtal við bónda í gær var með ólíkindum algjörlega.

Hann er ekki bara í djúpum skít í bókstaflegri merkingu, heldu einnig gerði hann sig sekann um að tala eins og barn um hlutina. T.d. talaði hann um ýmist 8 eða 10 beljur hafi verið að fæða á sama tíma. Í minni sveit var hið óvirðulega orðskrípi "belja" barnamál. Kýr bera kálfum og ekki orð um það meir.

 Matvælastofnun gerði sig seka um að moka ógeðslegum ljósmyndum í fjölmiðla. Til hvers? Blýanta-nagarar vita kannski ekki að stafræn mynd getur farið um heiminn allan á 5 sek. og valdið ómælu tjóni.

 En aðalatriðið er að flest fjós landsins eru í lagi. Sum fjós eru glæsilegar byggingar að utan og innan þar sem nautgripirnir allir, bændur, búalið og búnaður allur glansar af hreinlæti alla daga. - Sem sagt allt gott.


09.12.2012 16:50

Málið leyst!!?

Þessi ljósmynd er tekin í háleynilegri skipasmíðastöð í háleynilegum stað af nýjum Herjólfi sem verið er að ljúka smíði á um þessar mundir. Aðeins eftir ýmis lokafrágangur s.s. síðasta málningarumferðin.

Heyrst hefur að skipið sé geysilega öflugt. Mun stórveltubrim, sandur og jafnvel grjót ekki hindra för þess né vera til trafala að neinu ráði. Nánari upplýsingar um stærð, ganghraða og fl. liggur ekki fyrir að svo stöddu vegna mikillar leyndar um verkefnið.      


07.12.2012 07:45

Hátækni

Það er helst að frétta úr heilsufarsiðnaðinum á Íslandi að annan daginn eru mörg hundruð hjúkrunarfræingar að segja upp og hætta störfum en hinn daginn á að byggja risa stórt hátækniheilsubæli  á versta stað í höfuðborginni.

En hvað er hátækni í heilsubót? Er það hraðgengari færibönd, beittari hnífar, skilvirkari vinnslulínur sem margfalda afköst? Kannski vélmenni - já, sjálfvirkir hjúkrunarfræðingar með innbyggðum ofurpilluskammtara og terabætatilfinningu sem stoppa aldrei, hætta aldrei.  Og halló, halló sjálfvirki heimsóknarinn, ekki má gleyma honum - alltaf hress.


02.12.2012 12:59

Samsæriskenning.

Þeim sem hafa gaman af samsæriskenningum má skipta í tvo flokka. Þá sem hafa gaman af því að búa til samsæriskenningar og svo hinir sem hafa tilhneigingu til að trúa flestum samsæriskenningum. Ég tilheyri nær eingöngu fyrrnefnda hópnum.

Undanfarið hefur verið að birtast í miðlum ljósmynd sem er sögð tekin af hinum stómerkilega vitbíl Curiosity sem er að skoða sig um á Mars um þessar mundir.

Ég sé ekki betur en að í linsunni eða þessu "auga" sem blasir efst á græjunni speglist myndatökumaður með eitthvert landslag í baksýn.

Mín kenning er sú að myndin sé í raun tekin austur á Síðu vorið 2011 þegar Grímsvatnagosið með tilheyrandi öskufalli var fullum gangi. Sem sé að græjan á myndinni sé búin til úr pappa og öðru tilfallandi dóti og það sé yfirleitt engin gáfugræja á Mars og hafi aldrei verið.

Nú megið þið trúa ef þið viljið. Ég trúi ekki minni eigin kenningu, finnst bara bara svo skemmtilegt að búa hana til.  Nei, ég trúi ekki að NASA klikki á svona atriði. 


  • 1