Færslur: 2013 Janúar

30.01.2013 17:09

Kanakettir.

Nú herma fréttir að kettir vestur í Ameríku séu miklu meiri skaðvaldar úti í náttúrunni en áður var talið.
Þeir drepi fugla í stórum stíl, hafi jafnvel útrýmt alveg fuglategundum. Ljótt er að heyra. Lengst af hefur mér þótt kettir vera ósköp vinaleg og ljúf dýr, -  núna í seinni tíð finnst mér kvikindin vera frekar svona fallegir í myrkri og skemmtilegir þegar þeir sofa. Hvað með ketti hér í náttúru Heimaeyjar? Hefur það verið skoðað eitthvað? Jú, ég treysti því að Ásmundur á Brimhólum hafi þetta allt á hreinu eins og honum er svo lagið. 

27.01.2013 11:42

Kjarnorku-Eyjar.


Fyrir nokkrum árum setti ég þessa ljósmynd hér inn á bloggið eftir að hafa bætt inn á hana teikningu af ímynduðu kjarnorkuveri. Ekki vakti þetta neina athygli. Á þessum tíma var ég svolítið að spyrja mér eldi menn út í þetta mál. Fáir vildu kannast við þetta og aðrir fullyrtu að fréttin á sínum tíma um kjarnorkuver í Eyjum hefði verið eitthvað grín, sennilega aprílgabb. Nú er allt í einu myndskreytt umfjöllun um hugmyndina í sjálfum Móamogga þar sem menn að eigin sögn ljúga aldrei.
Það sem mér finnst vanta í moggafrásögnina er hugmyndir manna um staðsetningu versins. Var þá aðallega verið að hugsa svæði austur á Urðum. Og svo hitt að hugmyndin hafi f.o.f. komið til vegna vatnsskortsins hér. Árin fyrir 1958 hafði farið fram með ótal borholum "dauðaleit" af ósöltu vatni á Heimaey. Kjarnorkuverið átti aðallega að eima sjó, leysa þannig hin mikla skort á fersku vatni ásamt því að framleiða rafmagn og heitt vatn. 

20.01.2013 14:52

Úr fréttum vikunnar

Já, hvar fær maður hrossahamborgara? Ég er alveg viss um að borgari úr feitu og safaríku hrossahakki er eðalfæði. T.d. skjótt meri í formi stórgóðborgara er örugglega feiknamatur.
 

16.01.2013 14:31

Fólk keppir um starf.

Nú er tími prófkjöra. Fólk sem langar í þægilega innivinnu gerir sig áberandi stífbónað frá hvirfli til ilja.
Mætir hér og þar blaðskellandi og borubratt. Biðlar til fólksins sem sumt bítur á agnið og verður þá sjálfkrafa nytsamir sakleysingar nema nokkrir sem eru að taka þátt til að styrkja sína sérhagsmuni.

09.01.2013 11:10

Nýtt dagatal EYRÚNAR.

Dagatal fyrir árið 2013 sem Prentsm. EYRÚN gefur út í samvinnu við mig er komið út.
Dagatalið sem er fjórtánda í röðinni er að þessu sinni tileinkað óljóst afmörkuðum hluta Vestmannaeyjabæjar þar sem skipulagið er kaos með þó nokkrum sjarma.
 

09.01.2013 00:15

Landeyjaferjur í bunkum.

Það hefur verið rætt um að reyna að finna heppilega ferju meðan við bíðum eftir nýjum, glæsilegum og óaðfinnanlegum Herjólfi árið 2015. Yfirvöld segjast ekki finna nothæfa ferju nokkur staðar.
Ég rakst á þessa mynd áðan þar sem manni sýnist ferjur vera í stórum stöflum og bunkum.
Veit Ömmi af þessu?


05.01.2013 00:07

63 ódámar.

Ég tel mig hafa talið 63 bergþursa, grýlur, leppa, óbermi, illþýði og skaðvalda  á vellinum í Löngulág í kvöld. Fjöldinn táknrænn og við hæfi.


03.01.2013 08:16

Skaupið og raupið

Það er mikið raupað um skaupið þessa dagana sem eðlilegt er. Sjálfum fannst mér það varla ná einkuninni í meðallagi gott. Ég hafði fyrirfram gert mér í hugarlund að stór hluti skaupsins hefði verið tekið norður á Grímsstöðum með photosjoppuðum himneskum friðartorgum og keisarans höllum.
Nei, öllu Núpógríni sleppt.

  • 1