Færslur: 2013 Febrúar

24.02.2013 09:32

Lausnir á öllu?

Það er mikið masað og þrasað um þessar mundir um samgöngumálin. Götuhorna og kaffistofu-þrætubókin iðkuð af hjartans list því ekki getum við verið sammála um eitt eða neitt frekar en fyrri daginn.

Núna undanfarið hefur umræðan hljómað í mín eyru einhvern veginn svona:

 Fyrsti sjálfskipaði sérfræðingur segir:

"Stærð og búnaður nýrrar ferju á ekki að miðast við núverandi Landeyjahöfn, nei, heldur nýja og miklu stærri og betri Landeyjahöfn".

 Annar sjálfskipaði sérfræðingur segir:

"Það þarf ekkert að laga Landeyjahöfn. Nýr Herjólfur á að vera alveg eins og Baldur, hann er svo frábær".

 Þriðji sjálfskipaði sérfræðingur segir:

"Það þarf að búa til garð út frá eystri garðinum. Hann þarf ekki að vera langur - bara að skapa smá skjól, grjótið er á staðnum - tekur tvo, þrjá daga að redda þessu".

 Fjórði sjálfskipaði sérfræðingur segir:

"Það á bara að byggja almennilega garða alveg út fyrir rifið - núna strax. Okkur kemur ekkert við hvað það kostar".

 Fimmti sjálfskipaði sérfræðingur segir:

   "Já, við eigum að fara með slatta af dínamíti upp í Þorlákshöfn og rústa ferjuaðstöðunni þar. Þá fyrst verður farið að gera eitthvað af viti í Bakkafjöru og í    ferjumálum".

 Sjötti sjálfskipaði sérfræðingur segir:

   "Færa Landeyjahöfn eitthvað annað, bara eitthvað - austar eða vestar.

   Alls ekki hafa höfnina þar sem Siglingastofnun setti hana niður".

 Svona mætti lengi halda áfram að vitna í ofur-snillinga og allra-meina-lausnara.

Ég trúi að þessi samgönguvandamál leysist farsællega - vona það, (hef ekkert vit á þessum málum). Já, málin leysist einhvern veginn vel,  það verði að lokum ekkert til að rífast um - jú, náttúrlega fargjöldin og farmgjöldin verða auðvitað til að gera okkur galin og brjáluð um ókomna tíð. 

11.02.2013 07:41

Nýung fyrir þröngsýna.

Komin eru á markað gleraugu (auga) sem muni gagnast vel þröngsýnu fólki.
Er talið að þetta nýja hjálpartæki muni seljast eins og heitar lummur nú í aðdraganda alþingis- kosninganna í vor.

10.02.2013 15:52

Hrossalasanja?

Hvar fær maður hrossa-lasanja? Ég er viss um að það er fyrirtaksfæða. Líklega alveg sælgæti!


04.02.2013 11:46

Engin vikur féll í Heimeyjargosinu

40 ár frá Heimeyjargosi og af því tilefni mikið ritað og skrafað.  M.a. hefur hinn ágæti fréttamaður Kristján Unnarsson hefur verið viðtalsþætti um gosið á Stöð 2. Þar eru ótrúlega margir sem tala um vikur í staðin fyrir að tala um ösku sem féll á bæinn og kaffæri hann að hluta. Vikur er allt öðruvísi gosefni er léttur, frauðkenndur ljós á litinn og flýtur á vatni. 

03.02.2013 12:11

60 ára afmæli!

Viðar Einarson mélgerðarmaður m.m. til áratuga er sextugur í dag. Viðar er alltaf hress, jákvæður, hvers manns hugljúfi, einatt hrókur alls fagnaðar og fremstur meðal jafningja í góðra vina hópi (sjá mynd). Innilega til hamingju með daginn, Viðar.

02.02.2013 15:14

Minnisleysi.

Þessa dagana geysar skæð pest á Íslandi. Sóttin heitir minnisleysi, sérstaklega á atburði sem gerðust fyrir 4 - 10 árum. Fylgir þessu oft sárir verkir finnst mér á svipbrigðum margra sjúklinga. 
Smitleiðir eru margvíslegar, mest í loftinu, með útvarpsbylgjum og um alnetið - bloggi og blöðum.
 

 
  • 1