Færslur: 2013 Ágúst

30.08.2013 12:40

Stækkum Reykjavíkurflugvöll.

Enn einu sinni er hart tekist á um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Mér finnst flest rök með því að flugvöllurinn verði áfram á "sínum" stað þar sem hann er. Allar hugmyndir sem hingað til hafa komið fram um aðra staði finnst mér hafa mikla og stóra galla, þá megi afskrifa endanlega.

Ég vil ganga lengra en bara mótmæla illa grunduðum hugmyndum um flutning vallarins. Til þess bæði að treysta Reykjavíkurflugvöll í sessi um langa framtíð og auka öryggi hans enn frekar, ætti að lengja vesturendann talsvert. Setja Suðurgötuna í stokk undir flugbrautina. Einnig má lengja suðurendann einhvern spöl út í Skerjafjörðinn.

Efnið í þessar framkvæmdir ætti að taka innan úr Öskjuhlíðinni, bæði vegna nálægðarinnar og eins vegna samgöngubóta á þessu svæði höfuðborgarinnar. Fyrir utan löngu tímabær veggöng í gegnum Öskjuhlíðina má vel hugsa sér þar inni verði búin til alls kyns ævintýri og afþreyingu fyrir okkur öll, líka okkur landsbyggðafólkið og að sjálfsögðu gesti (túrhestana).09.08.2013 15:20

Skálmöld

Ég rölti að stóra sviði Þjóðhátíðar skömmu eftir miðnætti s.l. sunnudagskvöld og upplifði afar athyglisverðan ofurhávaða frá hljómsveitinni Skálmöld. Magnað kyngi ásamt fagmennsku heillaði mig
talsvert mikið. Ekki náði ég að heyra orðaskil í textum að neinu gagni, en eitthvað var hann fornlegur kveðskapurinn. Ánægður gekk ég frá þessari stund með suð í eyrum.

Nú er ég þegar búinn að stofna hljómsveitina Vargöld, - í huganum. Ekki minna orkuver en Skálmöld, grúvið og hávaðinn í botni en yrkisefnið reyndar annað. Um íslensk stjórnvöld í nútíma.

  • 1