Færslur: 2014 Mars

22.03.2014 08:31

Loksins, loksins!

Já, loksins á að fara að nýta svæðið vestan við Friðarhöfn. Hrein skömm að þetta óræktartún skuli ekki hafa verið nýtt í þágu sjávarútvegs og fiskvinnslu í svona stórri verstöð sem Vestmannaeyjar eru. Sannleikurinn er sá að umrætt svæði hefur aldrei komið raunverulega að gagni til eins eða neins. Ég hélt á sínum tíma að þegar Þórsskrúfunni var valin staður þarna, þá myndi t.d. sjómannadagsháðíðahöld flytjast á svæðið. Nýtingin yrði þá einn til tveir dagar á ári. Skárra en ekki neitt.


Ég tók þesa mynd einhvern tíma seint á síðustu öld. Myndin sýnir þetta eina skipti sem ég man eftir sem eitthvert gagn var af svæðinu í nærri 50 ár. Ferðafólk sem fékk að njóta.

17.03.2014 09:59

Hús birtist.

Undarleg fréttin í gær í sjónvarpinu um að hús hafi komið óvænt í ljós við jarðvegsframkvæmdir austur við Eldheima.

Í mínum huga hefur þetta tiltekna hús alltaf verið þarna. Vandalaust að finna um það góðar heimildir. Við upphaf  uppgraftar fyrir um tíu árum, nefndi ég við einhvern ráðamann hvort þetta hús yrði ekki skoðað. Var ég með í huga að það hefði kannski orðið fyrir minna hnjaski af völdum jarðýtunnar sem þarna var notuð mikið sumarið 1974.

Mér var eiginlega sagt að halda kjafti. Við heimafólkið ættum ekki að vera að skipta okkur af þessu. Einhver ungmenni í Reykjavík réðu algerlega ferðinni í þessu máli.

Mér finnst þessi vegferð öll vera samfelld mistök frá upphafi. Sorgleg og dýr mistök.

En úr því sem komið er ætla ég svo sannarlega að vona þessi fokdýra kosningahöll sem risin er þarna austur frá, verði okkur til gagns, fróðleiks og ánægju í framtíðinni.


Ég tel að þessar myndir sýni vel hvað var gerast þarna sumarið 1974. Vil meina að húsið á neðri myndinni hafi verið svo gott sem heilt áður en 40 tonna jarðýtan fór að skarka ofan á því.

11.03.2014 17:39

Herjólfur brúar bilið...eða hvað?

Ég vil gera orð Gísla Foster að mínum í dag - hvert einasta orð.

"Hvað er bara ekkert að frétta? Skil ekki af hverju allt er ekki orðið brjálað hér í Eyjum útaf þessu og bæjarstjórinn búinn að rífa af sér allt hár, rétt eins og þeir sem þurfa að stóla á þetta skip vegna fyrirtækja sinna. Það er ég hræddur um að þetta sé nú mikilvægara mál til að ræða um en einhver ESB tillaga vonlausa utanríkisráðherrans. Hér á fólk að vera orðið alveg brjálað, hér og nú, ekki seinna en áðan. Flott að vera búsettur í bæjarfélagi þar sem menn segjast stöðugt vera á uppleið en samgöngurnar nánast eins og þær voru í kringum 1970 - snilldin ein - alveg hreint hamingjan í öðru veldi svei mér þá.

Þetta er náttúruelga ekki hægt það gengur heldur ekki að hækka laun þessara áhfanarmeðlima um nokkra þúsundkalla á mánuði á meðan forstjóri batterísins er með tugi milljóna í árslaun og gerir sennilega færri hugsana- og handtök á ári en latasti hásetinn um borð - það er nú alveg í lagi að kippa þessu í liðinn, ekki seinna en í gær takk fyrir.

Leysa þetta mál takk, núna væri t.d. fínt"


06.03.2014 20:07

Um lygina.

Ég hef ekki ætlað skrifa um pólitík beint hér á þesum vettvangi. En stundum get ég ekki orða bundist svo undrandi verður maður stundum. Tilefnið núna var frétt á dögunum um ráðherra sem sakaði þingmann og fyrrv. ráðherra um að hafa logið úr ræðustól Alþingis. Þetta fannst mér mjög undarleg frétt og í raun mjög hlægileg. Frá því að ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum og umræðum á Alþingi fyrir ca. hálfri öld, hef ég ekki orðið var við annað en að úr ræðustól þingsins sé logið meira og minna á hverjum einasta degi sem þingið er starfandi. Já, lygi og hálfsannleikur, staðreyndum hagrætt og eiginhagsmuna-skáldskapur, fals og bull. 
Munum bresku sjónvarpsþættina dásamlegu "JÁ RÁÐHERRA".

 

03.03.2014 17:18

Um Eldfellshraun.

Mér hefur fundist að austast á Eldfellshrauni væru talsverðar breytingar frá ári til árs vegna niðurbrots.
Þess vegna kemur mér á óvart hvað sums staðar er lítil sem engin breyting eins og þessar samanburðarmyndir sýna.


01.03.2014 00:37

Táknmynd óvirðingar

Alþingi íslendinga hefur á undanförnum árum komið afar illa út í skoðanakönnunum þegar spurt er um traust og virðingu. Mér finnst táknmynd virðingarleysisins blasa við í fréttatímum sjónvarpstöðvanna, stundum oft í viku þegar viðmælendum fréttamanna stillt upp fyrir framan og til hliðar við fyrirbæri sem fellt er inn í hlaðin vegg í nýlega hluta Alþingishússins. Ég get ekki séð þetta fyrirbæri öðruvísi en höggmynd eða stækkaða og nákvæma eftirlíkingu (líkan) af  líffæri sem er aftan á hundum.

Það er víst rétt að taka það fram að eftir að hafa alist upp í sveit og er fyrrverandi hundaeigandi, tel ég mig vita um hvað ég er að tala.

 Tekið skal fram að maðurinn á myndinni sem hér fylgir kemur þessu máli ekki við - (ekki beint).


  • 1