Færslur: 2014 Júní

27.06.2014 17:30

22 ár liðin.

22 ár liðin síðan ég málaði mynd af Herjólfi á Básagaflinn. Það verk tókst bara nokkuð vel þó ég segi sjálfur frá, en var alltaf að mínum dómi auglýsing á röngum stað. Hefði gert meira gagn á góðum stað uppi á Íslandi.
Nú er öldin önnur og mér sýnist að nú sé að fæðast þarna verulega gott málverk sem mun lífga uppá svæðið og tilveruna. Takk fyrir það.


24.06.2014 11:14

Að skjóta listamenn

Þegar menn velta fyrir sér til hvaða ráða sé hægt að grípa til að breyta skattpíningu í hóflega skatta, jafnvel skítlága skatta, þá koma alltaf fyrst upp í hugann listamannalaunin.

Það sjá allir menn að þar liggur munurinn og vandinn. Blað skilur bakka og egg.

Helst hefur mönnum dottið í hug einföld lausn. Það er hreinlega að skjóta listamenn.

En reynslan sýnir að framkvæmdin má ekki vera of flókin og kostnaðarsöm, má ekki rýra ábatann um of. Það þarf að koma í veg fyrir að sett sé á laggirnar enn ein ný stofnun um verkefnið.

Listamannaeyðingarstofa ríkisins með forstjórum, skrifstofustjórum, her blýantanagara, yfirríkisböðli og eða embætti sérstaks listamannaeyðis. Rekstur slíkrar ríkisstofnunar ásamt sérhönnuðum aftökustað með öllum búnaði s.s. vopnum, skotfærum, þrifum og fl. mun kosta mikla fjármuni.

Nú er spurning um að nota aðrar gamlar og kannski ódýrari aðferðir, t.d. krossfestingu. Gallinn við þá aðferð er að þá gætu orðið til píslarvottar sem er afar óheppilegt fyrir áhugafólk um skattalækkanir.

Ef til vill dugir bara einföld reglugerðarbreyting til fækkunar listamanna. Það er að bæta því á verkefnalista meindýraeyða sveitarfélaganna í landinu. Skítugar rottur, grimmúðlegir svartbakar, dýrbítar blóðugir um kjaftinn og listamenn.

Já.

Sagt er og mun vera víst að eitt pennastrik dugi til að láta listamannalaun alfarið hverfa úr fjárlögum ríkisins. Hefur einhverjum dottið sú lausn í hug?


21.06.2014 18:06

Góðir gestir.

Það eru ekki mörg á síðan ég velti fyrir mér að best væri að breyta Stakkagerðistúni í byggingaland.
Þarna væri varla hræða á ferli þrjúhundruð og sextíu daga á ári. Nú hef ég skipt um skoðun.
Áhugaverð og óvenjuleg uppákoma hefur heldur betur lífgað uppá Stakkóið í gær og dag.
Takk fyrir komuna víkingar!

16.06.2014 23:00

Mikið tjón!

Þetta gerist því miður of oft að stóru skemmtiferðaskipin sem ekki komast inn í höfnina þurfi að snúa frá Eyjum vegna þess að það er einhver gutlandi fyrir austan kletta. Á sama tíma er renniblíða fyrir Eiðinu. Það mun vera að sögn fróðra tæknilega vel framkvæmanlegt að koma fyrir flotbryggju við Eiðið yfir sumarmánuðina. Það sem helst virðist koma í veg fyrir framkvæmdir er sturtið úr salernum okkar ásamt ýmsu öðru gúmmilaði sem hroðalega illa lyktandi flýtur um svæðið og er allt umlykjandi hleina, steina og fjörunnar sand í þessu annars stórbrotna umhverfi. 

09.06.2014 20:39

Sigurður VE 15

Þið hafið kannski tekið eftir því að ég setti slatta af myndum inn í albúm hér til minningar um Sigurð heitinn VE (ÍS, RE). Myndirnar tók ég langflestar 28, ágúst 2013 daginn sem lagði af stað til Danmerkur á vit örlaga sinna. Það fannst okkur mörgum dapurleg stund.

  • 1