Færslur: 2014 September

30.09.2014 07:29

BLEKÓS blaðsins.

Blekið seytlar víða hér og þar og safnast saman að einum ósi - BLEKÓSI

BLEKÓS blaðsins. Sömu stafir og í orðinu LESBÓK. Þegar Lesbók Morgunblaðsins var stofnað á sínum tíma hefur uppröðun stafanna eitthvað ruglast í blýsetninunni, - eða var það kannski öfugt?

Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar í ritstjórnartíð Gísla Sigurðssonar var afar eftirsótt af listafólki, aðallega myndlistarfólki að komast á forsíðu Lesbókarinnar. Oftast fylgdi dýrðarljóma opnuviðtal. Meiri upphefð og betri kynningu var vart hægt að hugsa sér. Jafnvel hörðusu kommúnista í hópi listamanna dreymdi blauta drauma um að hljóta hnossið mikla, - og sumir fengu það. Margir seldu öll verkin strax á opnun sýninga og fengu glimrandi fína gagnrýni (reyndar fór það sjaldan saman). Velgengnin var oft og aðallega þökkuð umfjöllunin í Lesbókinni.

Ekki man ég eftir að hafa velt þessu fyrir mér nokkurn tíma í alvöru, - svaf mínum draumlausa svefni á nóttunni og hafði nóg að gera á daginn. En samt.

Árið 1997 datt mér í hug að búa til mína eigun forsíðu. Vatnslitamynd sem hér fylgir ljósmynd af. Aðalmyndefnið er landið okkar eins og ég ímynda mér að sjá það neðanfrá og þar undir upphaf þjóðsöngsins afturábak eða öllu heldur eins og ég sé hann líka neðanfrá. Ég held það fari vel á því núna þegar bölvaður þjóðernisrembingurinn veður uppi sem aldrei fyrr.

Ps. Nú er búið að eyðileggja gömlu góðu Lesbókina fyrir löngu.


26.09.2014 09:07

Sjálfsmyndatökur.

 Sjálfsmyndataka  virðist vera hálfgert æði sem hefur gengið yfir heiminn seinustu misseri. Líklega er það margþúsundfölduð myndavélaeign almennings á allra síðustu árum sem hefur vakið þetta upp og síðast en ekki síst tilkoma snjallsímanna .

Á gamla góða ylhýra heimsmálinu heitir þetta selfie.

Fyrir ári eða svo voru uppi alls konar vangaveltur hver hefði tekið fyrstu sjálfsmyndina og hvenær.

Man ég að nefnt var árið 1980 og eitthvað í því sambandi. Ég held aftur á móti að þetta selfie hafi byrjað þá og þegar myndavélar urðu almenningeign fyrir miðja seinustu öld.

Í mínu ungdæmi á árunum eftir 1960 var þetta þó nokkuð algengt. Reyndi ég þetta sjálfur með frekar slökum árangri, minnir mig. Vandinn var yfirleitt að myndavélar voru einfaldar, höfðu fastan fokus og fáar eða engar stillingar af neinu tagi. Árangurinn fór því aðallega eftir því hvað menn voru handleggjalangir, gátu haldið vélinni nægilega langt frá andlitinu til þess að myndin yrði sæmilega skýr. 

 

24.09.2014 15:29

Nýtt örnefni?

Á fundi vísindamannaráðs í morgun  er m.a. talað um hvert gosgas (svokölluð mengun) muni leggja í
dag. Þar er nefndur FLATEYJARSKAGI. Nú er spurning við hvað er átt? Líklega er átt við skagann allan milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa.

12.09.2014 12:33

Um veggmynd.

Fyrr í sumar skrifaði ég hér bjartsýnan smápistil um veggmynd sem þá var að byrja að myndast á  suðurgafli Bása á Básaskersbryggju. Ég hefði átt kynna mér málið aðeins áður, m.a. vegna þess  að ég stóð í þeirri meiningu að þarna væri sami listamaður og málaði myndina góðu austan á Kaffi Kró. Það reyndist ekki vera rétt.

Því miður get ég ekki annað en lýst talsverðum vonbrigðum með þessa veggmynd. Mesti gallinn finnst mér vera kalt yfirbragð, kaldur blágrámi myndarinnar. Það er þannig að grátónar skiptast í tvo megin flokka, hlýja tóna og kalda tóna. Þarna eru flestir litatónar kaldir. Ljósmyndaraunsæi er oftast vandmeðfarið og margs að gæta. Það læðist að manni sá grunur að myndgerðarkonan hafi málað eftir svart/hvítri ljósmynd. Ef  rétt reynist, held ég hefði farið betur á því að hafa málverkið hreinlega svart/hvítt. Ef bakgrunnurinn á að vera dæmigerð hraungrýtt fjara hér á Heimaey t.d. suður í Klauf, þá er eins og það hafi orðið hræðilegt kjarnorkuslys - engin litagleði þörunga og þaragróðurs. Ekkert líf, allt dautt.

Einnig finnst mér teikningin slök á köflum. Nefni ég sérstaklega afleitar gárur og vandræðalegt skip. Enn og aftur spillir helkaldur litablærinn mikið fyrir ágætlega teiknuðu andliti og líkamsstöðu barnsins.

Ég hef dregið að minnast á þetta í þeirri von að umrætt verk vendist og skánaði með tímanum a.m.k. huglægt. En því miður aftur - það versnar bara.


09.09.2014 15:18

Leiðrétting.

Mér varð dálítið á í messunni í gær þegar ég setti saman samanburðarkortið. Eitthvað voru mælikvarðarnir ekki réttir, munurinn er um 20%. Stærð hraunsins er eins og það var í gærmorgun. Eitthvað hefur það lengst síðan. Hér kemur rétt kort.

  • 1