Færslur: 2014 Desember

24.12.2014 16:13

Hátíðakveðjur!

Óska ykkur öllum, vinum og ættingjum sem ekki fá kort frá mér latasta kortaskrifara landsins, gleðilegra jóla, gleði og hamingu á nýju ári. Allra bestu þakkir fyrir liðið ár.

12.12.2014 08:49

Að passa upp á landið.

 Næra sig, baða sig , klæða sig, drífa sig og passa sig. Já, náttúrulega - náttúrupassa sig.

Að aulagríni slepptu þá finnst mér aðalatriðið gleymast dálítið þessa dagana í þrasinu um hvort það eigi að vera náttúrupassi eða einhver önnur fjáröflunarleið.

Stóra málið er að hægt en örugglega er verið að plokka spjarirnar utan af móðir náttúru á Íslandi sem endar með því, ef ekki strax er gripið í taumana, að hún, þ.e. móðir náttúra og jafnvel fjallkonan líka verða troðnar berrassaðar ofan í drullusvað af milljón skaflajárnuðum túr-hestum með hjálp og velþóknun okkar. Þeirra okkar sem viljum ekki borga. Held að náttúrupassi þurfi ekki endilega að vera alslæmur, nema í ljósi reynslunar er hætta á að fljótt byggist upp ægilegt eftirlitsbákn með tilheyrandi ofurkostnaði. Skoða aðrar leiðir.

Tekið skal fram að ljósmyndin sem hér fylgir er af íslenskri náttúru. 


11.12.2014 08:57

Myndskreytingar í jólablöð Dagskrár

Á árabilinu frá 1979 til 2003 að nokkrum árum undanskildum, teiknaði ég myndskreytingar við frásagnir, sögur og ljóð, eina eða fleiri í senn í jólablöð Dagskrár fyrir Hermann Einarsson.

 Myndirnar sem eru alls 26 og birtust í 20 blöðum hef ég nú fyrst tekið saman.

Ég hef aldrei haldið utan um þetta og var reyndar alveg búinn að gleyma sumum þessara teikninga. Ég rifja það upp núna í huganum að stundum var ég að teikna þessar myndir á síðustu stundu undir tímapressu sem aldrei má vera afsökum slakra vinnubragða. Oftast reyndi ég að hafa teikningarar dálítið sjálfsprottnar og án fyrirmynda.

Mér finnst reynar nú þegar ég horfi í fyrsta skipti á þessar myndir allar saman, að ég geti bara verið þokkalega ánægður og finnst að ég hafi lagt svolítið til myndmenningar hér í Eyjum. Ég ætla ekkert að tala um list í þessu sambandi, enda vanhæfur.

 Nú hef ég sett þessar 26 myndir hér inn í album með skýringum. 


04.12.2014 08:35

Innan við rassvasana

Mér finnst frekar leiðinlegt að nönldra hér á þessum vettvangi. Var búinn að ætla mér að gera svolítið hlé á því.  En tilefnin hrannast upp nú sem aldrei fyrr. Ómögulegt að halda kjafti. 
Ég ætla að taka heils hugar undir og bæta við grein Skúla Ólafssonar í Eyjafréttum núna í dag um skammarlegt sleifarlag varðandi brjóstmyndina af Einari Guttormssyni lækni og heiðursborgara Vestmannaeyjabæjar. Hér ætla ég að bæta við að ágætlega merkt málverk af Einari hefur verið sett inn í skot þar sem hvorki dagsljós né raflýsing nær til.
Það var sagt í minni sveit að þegar menn létu verkin dragast og dankast, þá væru menn með báðar hendur í rassvösunum. Endalaus dráttur verka þýddi að hendurnar væru komnar inn fyrir rassvasana
- klóra, klóra.

  • 1