Færslur: 2015 Maí

26.05.2015 15:27

Ég sagði ykkur það.


MIKILL ER MÁTTUR LISTO.123.IS

25.05.2015 12:58

Það gefur auga leið!

Tilboð í smíði nýrrar ferju verður boðin út í síðasta lagi í næstu viku, það bara hlýtur að vera.

22.05.2015 21:49

Mín rammaáætlun.

Í hrauninu milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar stendur stór verslunarhöll sænsk að uppruna. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Hillur svignandi og kirnur kúfaðar af varningi hvers konar. Þarna þykir sjálfsagður viðkomustaður í hver sinn sem við hjónin heimsækjum höfuðborgarsvæðið -  sem reyndar er ekki oft.

 Rammadeildin hefur mér fundist áhugaverðust, eiginlega er það eini staðurinn sem mér finnst gaman að skoða, spá og spegulera. Algengustu rammarnir sem þarna bjóðast eru ágætlega vandaðir og smekklegir, ekta trjáviður og ekta gler.

 Án þess að hafa  sérstaka þörf fyrir ramma tók upp á því fyrir nokkrum árum að kaupa einn eða tvo ramma í hvert sinn. Það gaf  heimsókn í sænska musterið einhvern veginn aukna fyllingu og tilgang. 

 Nú á ég góðan slatta af ónotuðum og óvirkjuðum römmum.

 ÞETTA ER MÍN RAMMAÁÆTLUN.

 Þessar rammafirningar gætu verið góðar að grípa til, ef það henti einhvern daginn, að á mig rynni óskaplegt myndgerðar og  listsköpunaræði.

 Í viðræðum við sjálfan mig hefur um þessa rammaáætlun ríkt fullkomin sátt.

 Reyndar rifjaði ég upp í þessu sambandi að fyrir mörgum árum skoðaði ég eitt sinn myndlistarsýningu sem mér þótti bæði vond og tilgangslaus. Hugsaði að jafnvel ég gæti sett upp áhugaverðari og frumlegri sýningu með tómum römmum eingöngu. 

 Ég hef núna verið að ræða þetta við mig. Hvort vitlegt sé að endurvekja þessa gömlu hugmynd að sýna eingöngu óvirka og tóma ramma (sem gætu t.d. verið táknmyndir fyrir tómleikann í höfðum háttvirtra alþingismanna)?

 Það kom fljótt í ljós að þetta gæti verið kveikja að alvarlegum ágreiningi milli mín og mín. Að halda  þessu máli til streytu gæti valdið grímulausu málþófi og öðrum langvarandi leiðindum.

 Ég og ég erum fullkomlega sammála að nefna þessa rammasýningu aldrei framar.

 Það gæti e.t.v. (ólíklega) orðið öðrum til eftirbreytni.  


63 óvirkjaðir rammar.

16.05.2015 16:50

Ef og kannski!

"Es Laxfoss hætti ferðum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja 20. júní. Horfði þá illa í samgöngumálum héraðsins". Þetta er úr fréttaannál frá árinu 1941. Gömul og ný saga.

Nú komið fram yfir miðjan maí og Herjólfur siglir dag eftir dag í Þorlákshöfn.

Hvað annað er að frétta samgöngumálum okkar vestmannaeyinga nú á vordögum árið 2015? Eitthvað uppörfandi og jákvætt? 

Ef og kannski.

Nýjasta er að einhverjir voru að skora á yfirvöld að fá erlenda (hlutlausa) aðila til að meta hvað réttast sé að gera til bóta í Landeyjahöfn. Kannski er það ráð, sérstaklega í ljósi þess að vonlaust er að fá nokkurn, hvorki yfirvöld né aðra til að hlusta á ýmsar  hugmyndir um lausnir, bæði ódýrar og dýrar sem nóg er til af.

Fólk talar oft og einatt um að það þurfi að klára höfnina, þá muni allt lagast.

Sannleikurinn er sá að gerð Landeyjahafnar var kláruð fyrir fimm árum miðað við  upphaflega gefnar forsemdur. Höfnin átti allan tímann að vera bara ósköp lítil og sæt.

Eiginlega var aðalatriðið að þessi nýja höfn mætti alls ekki ógna og eða keppa við Vestmannaeyjahöfn í einu né neinu.

 Höfnin nýja upphaflega hönnuð fyrir (pínu) litla og krúttlega ca 50x13m ferju. Áður en lauk var svo ákveðið að auka bilið milli hausa og gera ráð fyrir eitthvað stærri ferju.

Ekki var gert ráð fyrir núverandi Herjólfi fyrr en eftir hrun, meint fátækt og vælugangur sem því fylgdi breytti fyrri áætlunum.

Hvað er svo að frétta af nýrri ferju núna? Ef og kannski. Margar vikur eru síðan talað var um að allt væri tilbúið til að bjóða út smíðina - ef peningar findust einhver staðar.

Ef og kannski.

Frekar undarlegt að gert er ráð fyrir að það taki nær helmingi lengri tíma að smíða þessa ferju en smíðatími núverandi Herjólfs (1992) og  Herjólfs II (1976) var, u.þ.b. 14 mánuðir í bæði skiptin. Ótrúlegt að verkkunnáttu og tækni í skipasmíðum hafi hrakað svo mikið. 

Ef og kannski. 

 

  • 1