Færslur: 2015 Október

26.10.2015 20:06

Hið helga fell.

Þetta er hluti forsíðu Framsóknarblaðsins frá því fyrir 50 árum, 1965. Þá var ritstjóri og ábm. Jóhann Björnsson þáverandi forstjóri Póst & Síma hér í Eyjum, oft kallaður Jói póstur. Ég kynntist nafna mínum dálítið seinustu árin sem hann lifði. Jóhann var margfróður, víðförull og hafði frá mörgu skemmtilegu að segja. Eitt sinn er við vorum að spjalla saman, var ég að kvarta yfir áhugaleysi margra samborgara okkar á umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þá sagði nafni  mér frá því þegar hann lét mixa þessar myndir í prentsm. Eyrúnu og síðan birtar í blaðinu. Sumir urðu reiðir og skömmuðu Jóhann fyrir tiltækið. Aðrir sögðu að þetta hefði opnað augun sín, þeir gerðu sér nú betur grein fyrir hvað efnistakan úr Helgafelli gæti valdið miklum skaða á náttúru Heimaeyjar að óbreyttu og ef ekkert yrði að gert. Athygivert er hvað ritstjórinn Jóhann Björnsson var í raun langt á undan sinni samtíð með þessum gjörningi.

 Síðan liðu 6 ár. Haustið 1971 fórum við allstór hópu fólks undir forystu Guðna Hermannsen og Páls Steingrímssonar upp í Helgafellsgrifju og mótmæltum efnistökunni sem var geysi mikil á þessum tíma, með kurteisislegum tilþrifum. Viðbrögðin urðu ótrúleg. Strax í ársbyrjun 1972 var Helgafell alfriðað með lögfastri reglugerð.

Ekki finnst manni framsóknarfólk almennt hafa verið áberandi í umræðunni um verndun náttúru og umhverfis s.l. 50 ár. Svo núna allt í einu rísa þau upp á afturlappirnar undir forystu foringja síns og vilja friðlýsa ekki nógu gamlan grjóthlaðin hafnarkant í miðborg Reykjavíkur. Ekki hef ég kynnt mér málið mikið, en finnst það hljóti að vera til farsæl lausn. T.d. að byggja utanum kantinn allan eða hluta, bjórkjallara í gömlum stíl með langborðum úr grófum viði og tilheyrandi. Er ég með í huga eina alskemmtilegustu öl- og vínstofu á Íslandi sem er Saltkjallarinn í Flatey á Breiðafirði.

Svo er auðvitað hægt að taka þetta grjót og raða því á bretti og flytja vestur á Granda. Geyma það þar í einhvern fjölda ára, eða þangað til öllum finnst tilvalið að endurhlaða hafnarkantinn uppi í Árbæ. Það væri eftir ýmsu öðru.

19.10.2015 19:57

GESTA-PÓLÍS

Prýðileg ráðstöfun væri að finna eyðibýli einhver staðar í afskekktum dal langt frá mannabyggð og flytja þangað Útlendingastofnun. Best að þar sé ekkert vegasamband, ekkert símasamband né önnur samskiptatæki við umheiminn. Vor og haustferðir á þyrlu með vistir. E.t.v. dugir einungis haustferð með einhverja næringu ef bæjarlækur í túnfætinum er til staðar.


19.10.2015 07:58

Gömul ljósmynd

Þessi gamla mynd tengir við bæði nýjustu myndaalbúmin hér: Gamli tankurinn og Þrælaeiði.
Á þessari mynd, sem líklega er tekin um eða rétt eftir 1950 sjáum við mikið at á Básaskersbryggju. Skipið er strandferðaskipið Esja frekar en Hekla - ekki gott að segja.? Litli skúrinn neðst á bryggjuni aðeins til hægri, er olíuafgreiðsluskúr beintengdur við tankinn gamla. Tel nokkuð víst að ljómyndarinnn standi upp á tanknum. Í baksýn er Eiðið ansi lágt og lítilfjörlegt saman borið við það sem blasir við í dag.

15.10.2015 18:50

Gamli tankurinn

Á fyrstu árum mínum hér í Eyjum fyrir nærri hálfri öld, fannst mér eitt af kennileitunum á hafnarsvæðinu vera ESSO-tankurinn efst á Básaskersbryggju.

Áratugum seinna fór ég að velta fyrir mér hvað tankurinn væri gamall, aðallega vegna þess að hann er hnoðaður og hvað hann sést á mörgum ljósmyndum, sem í dag eru jafnvel yfir 70 ára gamlar. Hef ég ekki fundið öruggar heimildir um aldurinn og eða hvort hann var smíðaður á staðnum eða fluttur hingað í heilu lagi? Á tankurinn e.t v. einhverja fortíð annar staðar en hér í Eyjum? Einhver getur kannski svaðað því.

Merkilegast og í raun ótrúlegt er að fyrir 8 árum (2007) hafði þessi hnoðaði öldungur vistaskipti, gengur í endurnýjun lífdaga sem lýsistankur fyrir fiskimjölsverksmiðju FIVE, Stendur núna hnarreistur milli tveggja nýrri lýsistanka þar sem áður var athafnasvæði Ársæls Sveinssonar, í daglegu tali kallað Sælahús og Sælaslippur.

Ljósmyndir varðandi þessa sögu í albúmi sem heitir "Gamli tankurinn"


10.10.2015 08:55

Fóðrum ekki seli með pysjum.

Í gær fórum við með fríska og káta pysju til skráningar í Sæheimum eins og vera ber. Þegar við vorum að fara , skaut Örn Hilmis. því að okkur að selir gætu verið að bíða eftir okkur suður í Höfðavík.
Með þetta í huga skoðuðum við nokkra aðra (ómögulega) staði á eyjunni til að sleppa, Þá var farið suður í Höfðavík sem alltaf hefur verið lang besti sleppistaðurinn. En viti menn, Örn hafði rétt fyrir sér. Tveir selir skutu upp kollinum út af spilinu um leið og við komum niður að fjörunni.
Pysjunni okkar frísku og lífsglöðu var svo sleppt frá Herjólfi fyrir austan kletta í gærkvöldi.

07.10.2015 20:10

Fiskiðjumyndir 2015

Ég var núna að setja inn ljósmyndir í albúm sem heitir Fiskiðjumyndir 2015.

Það er hálf dapurlegt að fara yfir þessar myndir sem ég tók í sumar flestar inni í Fiskiðjunni. Mér er eiginlega innanbrjósts eins og ég sé að skrifa minningagrein. Ég get sagt að Fiskiðjan hafi verið mitt annað heimili í 20 ár, frá 1966 til 1986. Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á þessar stóru og prýðilega teiknuðu byggingar grotna niður. Nú eru framkvæmdir í gangi sem vekur vonir um að bæði vestur og austurbyggingin ásamt brúnni verði bæjarprýði til góðra nota og gagns um langa framtíð.

Þar sem búið er að fjarlægja alla milliveggi auk brunaskemmda í vesturbyggingunni þar sem flestar myndirnar eru teknar, getur verið dálítið snúið að átta sig á hvað er hvað og hvar er hvað, jafnvel fyrir gjörkunnuga.

Mun ég reyna á næstunni setja inn myndskýringar eftir því sem ég get. Aðstoð ykkar er vel þegin.

 

  • 1