Færslur: 2016 Janúar

30.01.2016 09:44

Bónus og ellin þrjú.

Landlyst, Lundur og Landakot, húsin sem heyra sögunni til þar sem glæný Bónusverslun verður opnuð einhvern næstu daga. Á dögunum kom inn um bréfalúguna hjá okkur bréfspjald með útskýringum á nýjum umferðarleiðum og umferðarreglum vegna tilkomu hinnar nýju verslunar. 
Á bréfspjaldinu ávarpar Formaður Umhverfis- og skipilagsráðs okkur og segir meðal annars: ".. halda tryggð við þá stefnu bæjaryfirvalda að byggja upp sterkan miðbæ, sem einkennist af blómlegu mannlífi og sterkum verslunar- og þjónustukjarna. Sú stefna hefur skilað bæjarbúum og gestum lifandi og skemmtilegum miðbæ." Ekki gengur þetta alveg upp í mínum huga. Að fjölga bílum og bílastæðum á þessu litla svæði sem skapar ýmis umferðarvandamál vegna plássleysis og þrengsla getur varla verið til að skapa lifandi og skemmtilegan miðbæ.
Annað. Það er rétt og sanngjarnt að nefna líka það sem vel er gert. Það hefur nú að undanförnu verið framúrskarandi vel verið staðið að því að ryðja gangstéttirnar í bænum. Takk fyrir það.

25.01.2016 20:28

Reykjavíkurmyndir.

Var að klára að setja hér í möppu yfir 250 ljósmyndir sem ég hef tekið í Reykjavík. Stór hluti myndanna er frá síðustu 10 til 12 árum. Aðrar eru eldri, þær elstu frá um 1970 eins og myndin sem hér fylgir þessu bloggi. Ég vona að þið sem elskið Reykjavík finnið einhverjar myndir sem gleðja og eins þið sem elskið að hata höfuðborg okkar allra landsmanna finnið einnig eitthvað kannski merkilegt og eitthvað til að óskapast yfir. Dálítið er þarna af myndum sem ég tók vegna sérstakra verkefna. Ég sleppi öllum ártölum og útskýringum. Það verður kannski svolítið skemmtileg gestaþraut fyrir ykkur. 

18.01.2016 12:31

10 ára gömul hola (myndir).

Síðar á þessu ári verða liðin 10 ár frá því að Faxaskáli var mölvaður niður. Það var fyrsta skrefið í brjálæðilegum heimsyfirráðahugmyndum í formi risabygginga úr gleri og stáli á svæðinu. Harpa reis en annað er ennþá hola.

13.01.2016 20:15

Um óvandaðar fréttir.

Í hádegisfréttunum á RÚV í dag var margendurtekið að 40 ár séu liðin síðan stór jarðskjálfti reið yfir í Kelduhverfi. Í smá stund hugsaði ég hvaða skjálfta er verið að tala um? Það kom í ljós að verið var að tala um Kópaskersskjálftann mikla í janúar 1976. Það er rétt að jörð skalf vikum saman þennan vetur í Kelduhverfi. Líklega vegna þess að ég er fæddur og uppalinn í þessari sveit, fylgdist ég mjög vel með öllum fréttatímum þegar mest gekk á. Ég held að undantekningarlaust hafi verið farið rangt með á hverjum einasta degi, hverri einustu frétt um skjáftana. Mannanöfn, bæjarnöfn, örnefni og staðháttalýsingar urðu fyrir barðinu á óvönduðum vinnubrögðum fréttamanna. 

Á þessari mynd sést hluti Skjálftavatns í Kelduhverfi. Þarna trítluðum við um svæðið þurrum fótum í mínu ungdæmi.

03.01.2016 19:37

Stærð kjörseðils?

Þessa 180° mynd tók ég s.l. sumar. Er að velta fyrir mér að láta prenta hana í "fullri stærð" sem er  ca. 60 x 253 cm. Það gæti verið sama stærð og kjörseðillinn í komandi forsetakosningum??? - en samhengið ekkert.

  • 1