Færslur: 2009 September

27.09.2009 22:01

Bara ljósmynd

Þessa ljósmynd tók ég austur á hrauni í vikunni.

25.09.2009 07:38

Um tukthús

Fangelsis(vanda)mál hér á landi hafa verið talsvert í fréttum undanfarið. Öll tukthús landsins yfirfull og biðlistar stórir og langir. Hugmyndir eru um að leysa bráðavanda með því að taka húsnæði á leigu og breyta í fangelsi. Nú hlýtur að styttast mjög í að böndum verði komið á terrorista íslenska bankahrunsins. Það liggur í augum uppi að mikið húsrými þarf til að hýsa þann stóra hóp og ef við miðum við dóma fyrir sambærilega glæpi erlendis, má reikna með margra áratuga innilokun hvers og eins. Til þess að mæta þessu dettur mér í hug að í útjaðri Reykjavíkur stendur galtómt stórhýsi sem heitir Bauhaus, en þar mun víst vera geysi hátt til lofts og vítt til veggja. Þessari byggingu er líklega auðvelt að breyta í nútíma "Brimarhólm" með lágum tilkostnaði.  Þarna mætti hugsa sér til hagræðingar og sparnaðar verði settur upp sjálfvirkur búnaður til fóðrunar og brynningar delinkventana. Einnig má hugsa sér einn flór eftir húsinu endilöngu með sjálfvirkum hreinsibúnaði o. s.fr. Við erum alltaf að spara!


22.09.2009 15:04

Ærin Bylgja

Þið eruð eflaust sammála mér að finnast fréttir almennt vera og hafa verið flestar leiðinlegar.
En svo eru undantekningarnar. Ein svoleiðis frétt birtist á mbl.is í dag, um ærina Bylgju sem kom fram við réttir eftir að vera talin dauð þar sem hún skilaði sér ekki fyrra. "Þarna er hún Bylgja sem drapst í fyrra" sagði eigandin þegar hann sá hana í réttinni. Þetta er skemmtileg saga, svona ekta sveitahúmor þó að í grunnin sé þetta hálf-kriminal vegna þess að í fréttinni er þess getið ærin hafi verið rúin og "eignast" lamb í vor. Þetta orðalag að ær eignist lamb get ég illa fellt mig við. Ær ber.

19.09.2009 08:50

Yfirburðir!

Andlegir yfirburðir þingeyinga hafa nú verið staðfestir endanlega með öruggum sigri Ljótu hálfvitanna í gærkvöldi. Bara ekki orð um það meir - takk fyrir það.

14.09.2009 11:35

Kvöl skuldara

Allt í einu fattaði maður logo Íbúðalánasjóðs. Þetta er auðvitað risaeðla, táknmynd forneskjunnar. Þetta hljómar kannski eins og  pintingartangir hávaxta og verðtryggingar sé uppfinning þeirra. Það er nú kannski ofmælt en Íbúðalánasjóður gæti gengið á undan með góðu fordæmi og þá myndu e.t.v.dínósárar ríkisbankana koma í kjölfarið með aðgerðum sem gætu linað þjáningar fólksins sem hefur ekkert til saka unnið annað en að reyna að eignast þak yfir höfuðið.


13.09.2009 20:19

Jethro Tull

Já, þeir voru hreint frábærir tónleikarnir með Jethro Tull á föstudagskvöldið. Anderson kallinn í góðu formi, lék við hvern sinn fingur þó röddin sé svolítið farin að gefa sig svolítið. Það kom ekki að sök þar sem bandið var geysilega þétt og vel spilandi. Þjóðlagahljómsveitin hennar Ragnheiðar Gröndal
sem hitaði upp var skemmtileg, þó truflaði mig nábleika lýsingin sem passaði illa við anda tónlistarinnar. Tvær ungar stúlkur Unnur B og Dísa komu fram með Tull og stóðu sig afar vel báðar.

Dálítið sérkennileg frétt á baksíðu Moggans á laugardaginn, greinilega skrifuð fyrir fyrri tónleikana um
söngkonuna Dísu,- Bryndísi Jakobsdóttur. Í fréttinni er ekkert minnst á fiðluleikarann Unni B.
Kannski er skýringin sú að hún á ekki fræga foreldra.? Svolítið moggalegt.

09.09.2009 13:01

Enn smá ábót

Setti í morgun smá ábót inn í gömlu myndirnar frá Flatey.

08.09.2009 21:13

Gömul ljósmynd

Hér er skemmtileg gömul mynd sem ég fann í dóti. Myndin er tekin einhvern tíma á sjötta áratug síðustu aldar nálægt stað þar sem nú eru gatnamót Hrauntúns og Illugagötu og sýnir fólk vinna
við saltfisk á stakkstæði. Lengst til vinstri er klárt að er Engli tengdapabbi, síðan fjórar konur sem
ég þekki ekki (einhver þekkir þær eflaust), svo er maður sem gæti verið Eggert Brandsson og lengst til hægri er Kort Ingvarsson.
Húsin eru t.f.v. Heiðartún, fjær húsið Helgafell, Saltaberg, fjær fjós og íbúðarhúsið í Hábæ, svo hús sem nú er Illugagata 54 og lengst til hægri sést í Hellisholt. Illugaskip og Illugahellir vinstra megin við fisktrönurnar.
 

03.09.2009 21:34

Yfir Bakkafjöru

Var að setja í albúm nokkrar myndir sem Heiðrún tók yfir Bakkafjöru nú undir kvöldið .
 

01.09.2009 21:50

Aðaláherslan

Það er auðvitað sjálfsagt að yfirvöld hamist í að koma í veg fyrir að Vítis-englar nái fótfestu á Íslandi.
Þá geta líka (Hel)vítis-árar bankahrunsins nú sem fyrr sofið rólegir á meðan.

  • 1