Færslur: 2011 Október

25.10.2011 14:58

Aldarfjórðungur

Um þessar mundir eru liðin 25 ár síðan ég stimplaði mig út í síðasta sinn. Byrjaði að hætta í júní og endanlega í október árið 1986 eftir að Fiskiðjan hafði nær samfellt í 20 ára verið minn vinnustaður. Með öðrum orðum, ég hætti að vera í fastri vinnu, gerðist einyrki. 

Fyrstu árin á eftir lét ég lítið fara fyrir mér, fór sjaldan úr húsi á daginn. Kemur þar aðallega tvennt til. Annað var að ég varð að vera harður húsbóndi við sjálfan mig, hafa reglu á vinnutímanum, nýta daginn vel. Hitt var að mér fannst móallinn í bænum vera einhvern veginn þannig að fullfrískur karlmaður ætti ekki sjást aðgerðalaus og slæpast niður í bæ eða einhver staðar úti á eyju um hábjartan dag og jafnvel á hávertíð.

Svo liðu árin nokkuð mörg við langar innisetur og hreyfingarleysi sem varð þess valdandi að sköpulag mitt tók að breytast ískyggilega. Að mínum dómi var bara eitt ráð við þeirri þróun, - fara út að ganga. Fyrst í stað, sennilega vegna samviskuvits varð ég að sannfæra sjálfan mig um að gönguferðirnar væru hluti af vinnunni minni. Ég var að leita uppi og safna myndamótífum (sem var reyndar rétt svona í og með).

Þó að það sjáist ekki á mér, hafa gönguferðirnar orðið að eins konar fíkn með árunum, gerir manni sannarlega gott ekki síst fyrir andann og sálina

 Á síðari árum hefur á gönguferðum mínum þörfum og óþörfum komið upp ýmis skondin tilvik þegar fólk mér ókunnugt  hefur jafnvel stöðvað mig á göngunni og spurt um  hagi mína og heilsufar. Dæmi: "Við hvað vinnur þú?" Án þess að ég fái ráðrúm til að svara kemur strax önnur spurning. "Ert´u öryrki?".Nei, ég er örvhentur einyrki. Ég sé undrandi andlit, samtalinu er lokið. 

 Ljósmyndin hér er af u.þ.b. 25 ára gamalli vatnslitamynd. 


08.10.2011 20:53

Herjólfur

Nú sem fyrr og af gefnu tilefni er þessa dagana mikið rætt um samgöngumálin hér í Eyjum. Fyrir u.þ.b. fimmtán árum skrifaði ég litla grein í eitthvert bæjarblaðið um tvær ferjur í förum milli lands og Eyja. Sérstaklega hvað það væri mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna hér ef siglt væri á morgnana frá Þorlákshöfn. Nú undanfarið hefur einhvers konar tveggja skipa hugmynd verið að koma nokkuð sterkt inn í spjallið í eldhúskrókum og kaffistofum bæjarins. 

 
  • 1