Færslur: 2013 Apríl

22.04.2013 00:52

Drullusokkurinn mikli.

Núna undanfarna daga hef ég, mér til mikillar ánægju verið að hlusta á diskinn Pale Green Ghosts með John Grant. Sannkallað eyrnakonfekt af bestu sort. Við fyrstu hlustun var sérstaklega eitt lag sem alveg límdist við heilann. Einstaklega ljúf melódía sem fékk mig í fyrsta sinn á ævinni til að hugsa (líklega er þetta aldurinn) að þetta lag vildi ég láta syngja yfir mér þegar ég væri komin í "kassann". Þá var það titill lagsins sem  vafðist fyrir mér um stund. Já, titillinn GMF er skammstöfun sem vísar til orða í textanum, "greatest mother fucker". Ekki var ég að velta öðru fyrir mér í textanum né skilja hann allan þegar ég sá að þetta væri bara dálítið fyndið. Ég fór sem sagt að sjá eigin útför sem spreng-hlægilega samkomu sem ég sjálfur mundi missa illilega af.


Þessi mynd er aftur á móti af Skinnastaðakirkju í Öxarfirði þar sem ég var skírður á sínum tíma. 

01.04.2013 08:58

Obama í Eyjum.

Forseti Bandaríkjanna Barack Obama kom óvænt hingað til Eyja snemma í morgun.

Forsetinn er einn á ferð og aðallega kominn til að skoða gyrðingarnar við höfnina sem kenndar eru við  fyrirrennara hans W. Bush. "Þær eru ferlega ljótar, gagnslausar og til trafala þróttmiklu athafnalífi hér við þessa stórkostlega fallegu höfn" sagði Obama eftir að hafa skoðað gyrðingadraslið með undrunarsvip. "Þetta járnarusl verður að fara" sagði forsetinn um leið og hann skellti sér í Skýlið að fá sér hammara. Síðast var vitað að hann er ennþá í Skýlinu í miklu spjalli við fólk og fastagesti. Obama forseti mun hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna stöðu samgöngumála okkar hér í Vestmannaeyjum. "Það gengur ekki að þið vitið ekki hvort ferjan ykkar er að koma eða fara og því síður hvert hún er að fara eða hvaðan hún er að koma" sagði forsetinn.

"Ég reikna með að halda fund, jafnvel núna strax og ég kem heim í Hvíta-húsið um málið. Ég mun kalla saman til mín helstu sérfræðinga frá Pentagon og leggja til við þá að við sendum til Landeyjahafnar flotadeild stórra og meðalstórra herskipa til þess að skýla höfninni fyrir verðri og vindum næstu tvö til þrjú árin til að byrja með". sagði forsetinn. "Svo hefur US Navy verið að þróa og prófa suður í Persaflóa sérstakar djúpsprengjur sem geta sópað óhemju magni af sandi í burtu á svipstundu" sagði forsetinn enn fremur við mikinn fögnuð viðstaddra - núna rétt áðan.


  • 1