Færslur: 2013 Nóvember

28.11.2013 08:34

Nú skal síldin fá það óþvegið. Eða hvað?

Það var margtuggið í fréttatímum í gær að þeir hjá Landhelgisgæsluni ætluðu að varpa djúpsprengjum á síldina í Kolgrafarfirði í dag. Nú er komið í ljós að þeir ætla bara að kveikja í nokkrum kínverjum.

08.11.2013 15:31

Brot úr iðnaðarsögu Vestmannaeyja.

Brot úr iðnaðarsögu Vestmannaeyja.

 Fast upp við hraunjaðarinn bak við húsið Kirkjuveg 15 (Einarshöfn), kúrir útihús. Hef ekki kynnt mér til hvers húsið var byggt upphaflega, en man að á árum fyrir gos var þar starfrækt skóvinnustofa.

Þetta útihús kemur við sögu í eftirfarandi frásögn.

Ágúst

Tel mig muna tímasetninguna rétt að það hafi verið á haustdögum árið 1976 að ungur maður úr Reykjavík, Ágúst Guðmundsson að nafni, kemur til Eyja og hefur störf í Fiskiðjunni, nánar tiltekið í vélflökuninni. Sá sem þetta ritar var þá verkstjóri yfir flökuninni. Fljótlega urðum við Ágúst ágætir kunningjar. Hann var einstaklega viðræðugóður, fjölfróður og hafði frá mörgu að segja sem mér þótti bæði skemmtilegt og forvitnilegt.

 T.d. var hann mikill sérfræðingur í öllu sem tengdist popp- og rokktónlist á Íslandi. Hann hafði samið tónlist, spilað með hljómsveitum en aðallega stjórnað upptökum og þess háttar, oft með ýmsu þjóðþekktu fólki í rokktónlistargeiranum.

Hér má skjóta inn í að fyrir um ári eða svo skrifaði ég svolítið blogg hér um hljómplötuna "Woops" með hljómsveitinni Andrew sem kom út árið 1974. Við gerð plötunar sem í dag er sjaldséður safngripur var Ágúst "altmugligtmaður".

Svo fór spjallið að verða enn meira spennandi og áhugaverðara. Ágúst var með tvö ríkisföng, íslenskt og bandaríkst. Einhvern tíma, skömmu áður en hann kom til Eyja, hafði hann lokið að mig minnir tveggja ára námi vestur í USA í hátækni- rafeindafræðum við skóla á vegum hersins. Ekki man ég hvort Ágúst var skráður í US army en það er þó líklegt. Á þessu árum voru margar hátækninýjungar að koma fram í risastökkum hjá Sámi frænda. Flest til eflingar baráttunar við heimskommúnismann. Kalda stríðið var við sögulegt frostmark á þessum árum

Stór áform

Nú, svo kemur að því að Ágúst trúir mér fyrir því að hann hafi áform um að stofna fyrirtæki og hefja rekstur hátækniverksmiðju hér í Vestmannaeyjum. Til að byrja með framleiða vekjaraklukkur sem væru að allri gerð hátæknibylting. Heimsnýjung.

Ágúst áformaði að þegar klukkusmíðin yrði komin á fulla ferð, þá bættust við nýjar framleiðslulínur, þar sem nýjar græjur, ný tækniundur til að bæta heiminn yrðu til. Sumt svo stórbrotin tækniundur, svo langt á undan öllu að nú hátt í fjörutíu árum síðar er það ennþá bara framtíðarsýn.

Fljótlega eftir þetta var Ágúst að fá hjá mér frí í tíma og ótíma, "skreppa suður" til að græja hitt og þetta. Og allt í einu var hann búinn að stofna firmað RAFSPEKI HF eða SF.

Búinn að láta hanna firmamerki og skömmu síðar búinn að ráða framkvæmdastjóra, mann sem ég get ómögulega munað hvað hét en hafði um skeið verið óbreyttur verkamaður á sting niðri í aðgerð í Fiskiðjunni.

Svo var Einarshöfn tekin á leigu sem íbúð og aðsetur fyrir þá Ágúst eiganda og forstjóra fyrirtækisins og framkvæmdastjórann. Útihúsið sem hér í upphafi var getið fylgdi með leigunni og var eiginlega aðalatriðið.  Þar skyldi "vekjaraklukkuverksmiðjan" mikla verða til húsa.

Undirbúningur hélt áfram af fullum krafti. Það þurfti að hanna bæði útlit og innra rafrásaverk klukkunnar. Þeir Ágúst og framkvæmdastjórinn fóru í mikin leiðangur til útlanda að kaupa inn alls kyns hráefni og íhluti. Skipuleggja og undirbúa húsnæðið, laga, mála, láta smíða, kaupa ýmsan búnað og verkfæri.

Já, það var að mörgu að hyggja, allt tók tíma og kostaði peninga. Framkvæmdastjórinn í síðum frakka og með stóra skjalatösku stikaði ábúðarfullur spölinn milli Einarshafnar og Útvegsbankans, stundum margar ferðir á dag.

Verksmiðjan fer í gang

Loksins, loksins fóru færibönd verksmiðjunnar  við neðanverðan Kirkjuveg í gang.

Nú birtast mér frekar óljósar minningamyndir: Það eru ekki nein færibönd. Það er eitt ílangt borðstofuborð á miðju gólfi þar sem misstórum og mislitum plastboxum með alls kyns íhlutum og skrúfum var raðað snyrtilega eftir endilöngu borðinu. Pappakassi á stól við enda borðsins til að taka við afurðinni. Framkvæmdastjórinn situr við lítið borð til hliðar og sorterar skjöl og pappíra. Frakkinn síði hangir á snaga og skjalataskan liggur á aukastól til hliðar.

Ágúst sinnir öllu öðru, lóðar og skrúfar og gerið allt sem gera þarf við samsetninarborðið. Er verkstjóri yfir sjálfum sér, eftirlitsmaður og gæðastjóri. Sér um pökkun og hellir upp á kaffi. Annast tiltekt og skúringar að loknum vinnudegi.

Hvað svo?

Já, það er nú það. Mergjaðar Gróu og kjaftasögur gengu um bæinn en þær verða ekki tíundaðar hér. Um hvað gerðist í raun og veru er minni mitt afar stopult. Ég vil þó meina að það hafi ekki liðið nema örfáir dagar þegar þeir félagar hurfu hér af eyjunni algerlega sporlaust og hafa ekki sést síðan. Ef einhver ykkar sem þetta lesið vitið einhverjar staðreyndir varðandi þessa sögu, þá yrði það vel þegið.

Hvað voru framleiddar margar klukkur? Urðu þær fleiri en tíu? Var verksmiðjan endurreist annar staðar? Hver var framkvæmdastjórinn? Hvar er Ágúst núna?

  • 1