Færslur: 2014 Apríl

03.04.2014 12:00

Grey skarfurinn.

Ég rakst á þennan skarf niður við smábátahöfn nú í vikunni. Hann var mjög blautur og hálf laslegur greyið. Við skulum vona að hann hafi náð að spjara sig.

01.04.2014 07:02

Höfuðhöggið

Eldnemma í morgun gekk Ísland formlega í Evrópusambandið. Í mjög stuttu máli má segja að hröð og ótrúleg atburðarás hafi byrjað um kvöldmatarleitið í gærkvöldi þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var nýkominn heim til sín eftir óvenju erilsaman og leiðinlegan dag og meðan suðan var að koma upp á mánudagsýsunni hafi hann lagst upp í sófa og dottað fljótlega en ekki fest almennilega svefn. Hafi ráðherrann verið eins og milli svefns og vöku um stund og látið ófriðlega sem endaði með því að hann datt fram úr sófanum. Í fallinu rak hann höfuðið í eitt horn sófaborðsins. Var það býsna þungt högg. Eins og fjöður spratt utanríkisráðherrann upp af gólfinu nú allur með nýjum brag - eiginlega nýr Bragi.

Allt í einu er eins og svipur og fas ráðherrans umbreytist. Hann rífur upp símann og hringir nánast samtímis í SDG og BB og segir að þeir verði að kalla saman ríkisstjórnarfund strax. Það megi engan tíma missa. Ísland verði að ganga í ESB  í einum fagurgrænum kvelli núna strax. Passa að láta ekki Vigdísi vita af þessu. Það sé eins gott að allir ráðherrar hlýði hans kalli og kröfum umyrðalaust, því annars sprengi hann ríkisstjórnina í frumeindir sem verði þá jafn tilgangslaus og steinullarafgangar úti í drullupolli. Það er skemmst frá því að segja að allt fór á fulla ferð. Símalínur glóandi og póstar fljúandi. Allir sérfræðingar og samninganefndir  ræstar út, líka í Brussel þar sem komið var nær háttatíma. Var liðið í alla nótt kófsveitt að moka sig í gegnum erfiðustu skaflana og kaflana. En allir lausir endar hnýttir og málið klárað nú í morgumsárið.

Sumir eru reyndar að benda á að í öllum flýtinum og asanum í nótt hafi Ísland fengið afar mikið af undanþágum og sérlausnum sem geti orðið til þess að íslenski hálfvitagangurin í efnahagsmálum haldi áfram um langa framtíð. Og í sárabætur muni dúsum verða stungið upp í bæði rauðkomma og blákomma til að sjúga og maula um leið og þeir skríða afturábak inn í moldarkofa afturhalds og stöðnunar.


  • 1