Færslur: 2014 Júlí

27.07.2014 07:19

Þjóðhátíð Vestmannaeyja 1964 3

Og hér er dagskrá Þjóðhátíðar fyrir 50 árum tæmd. Kl. 4.00 aðfaranótt sunnudags er allt búið.
Ég á dagskrá þjóðhátíðar 1966. Þar er skipulögð og prentuð gagskrá fyrir sunnudaginn. Byrjar með "létt lög í dalnum", svo íþróttir, skemmtidagskrá seinni part dagsins og endar svo með dansleikjum á báðum pöllum kl. 22.00 til 2.00.
Kannski veit einhver ykkar sem þetta lesið, hvort þetta var í fyrsta skipti sem sunnudagurinn var með, eða hvort það hefur verið árið áður,1965 sem það byrjaði...? Söguskoðun og sagnfræði.

Ps. Spurning um að endurvekja pokahandbolta á þjóðhátíð.....?


26.07.2014 09:18

Þjóðhátíð Vestmannaeyja 1964 2

Hér kemur dagskrá föstudagsins. Grín og gamanþættir eru þarna aðalmálið á kvölddagskránni, minna um söng og tónlist. Það er mikil breyting á 50 árum.
Þarna er kynnt til sögunnar hljómsveitin BOBBAR. Sveitin var sett saman nokkru fyrir þessa þjóðhátíð að tilstuðlan þjóðhátíðarnefndar. Sveitin æfði stíft um tíma og spilaði svo einungis tvö kvöld "fyrir nýju dönsunum" eins og segir í skránni. Helgi Hermannsson sem er 16 ára er kynntur sem söngvari Bobba. Með Helga í sveitinni eru m.a. Siggi á Hvassafelli, Þorgeir í Háagarði og Guðni í Landlyst og fl. Fljótlega eftir þetta er hljómsveitin Logar stofnuð sem var að halda upp á 50 ára afmælið nú á dögunum.
Hljómsveitin Rondó sem "spilaði og söng fyrir gömlu dönsunum" mun hafa verið frá Reykjavík.  
 

25.07.2014 16:27

Þjóðhátíð Vestmannaeyja 1964

Nú eftir rétta viku verður búið að setja Þjóðhátíð Vestmannaeyja og dagskráin komin í fullan gang.
Vonum að þessir blessuðu margumræddu veðurguðir verði okkur hliðhollir.
Ég ætla næstu daga til gamans og fróðleiks að sýna ykkur hér dagskrá Þjóðhátíðarinnar 1964, fyrir 50 árum.
Byrja hér á forsíðunni. Þar er texti þjóðhátíðarlagsins ÞAR SEM FYRRUM. Lagið eftir Oddgeir og textinn eftir Ása eins og svo oft áður. Líklega er þarna ein innsláttarvilla, - fárumst ekki um það.
Nú vill svo til að þetta þjóhátíðarlag er ekki á skránni í þjóðhátíðardeild Sagnheima.

 Ég vil minna ykkur á sýnunguna í anddyri Safnahúss, Einarsstofu. Sýningin er fyrst og fremst tileinkuð þjóðhátíðarmerkjunum í gegnum tíðina en þar er líka margt annað að sjá tengt þjóðhátíðum. Gunnar Júlíusson á miklar þakkir skyldar fyrir drífandi frumkvæði, hugmyndir og þá geysi miklu vinnu sem hann hefur lagt að mörkum. Einnig vil ég þakka Kára Bjarnasyni fyrir stuðning og lifandi áhuga á verkefninu. Að sjálfsögðu ber að þakka þeim fjölmörgu öðrum sem lögðu þessu verkefni lið, þessari sýningu lið með vinnu og lána muni og ekki síst fyrir að gefa muni tengda þjóðhátíðum til Byggðasafnsins. 

  • 1